Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:21:32 (5822)

1998-04-28 17:21:32# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:21]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er aðeins örstutt. Aðeins til að ítreka það álit mitt og skoðun að það beri að reyna að ná því fram að svæðisskipulag á hálendinu verði staðfest þó að ég sjái engar líkur á að það verði fyrir áramót. Ég held að það verði ekki fyrr en vonandi fljótlega upp úr næstu áramótum sem allri þessari miklu vinnu verður lokið og verði sú nýja nefnd til, sem hefur komið inn í umræðuna, þá vil ég aðeins ítreka það sem segir í 2. gr. frv. sem er þó reyndar ekki til formlegrar umræðu. Það segir, með leyfi forseta:

,,Skipulagsstofnun skal leita álits samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins, sbr. 12. gr. a., á tillögum að svæðisskipulagi miðhálendisins sem unnið er að á vegum samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins sem skipuð var árið 1993, áður en Skipulagsstofnun gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu þess.``

Hér er ekki gert ráð fyrir að hin nýja nefnd fari að vinna skipulagsvinnu á ný eða vinna þetta verkefni allt saman upp og ég þykist þess fullviss að til þess komi ekki en að sú vinna sem er nú þegar í gangi og sú niðurstaða sem verður vonandi fengin um áramótin verði sýnd hinni nýju nefnd og álits leitað. Það er þá á valdi Skipulagsstofnunar hvort hún vill taka tillit til hugsanlegra athugasemda hinnar nýju nefndar við endanlega tillögugerð til ráðherra.