Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:40:00 (5825)

1998-04-28 17:40:00# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:40]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég hef kannski ekki talað nægilega skýrt. Sú tillaga sem hæstv. umhvrh. kynnti áðan er ekki sú tillaga eða sú breyting sem ég vil gera á lögunum. Ég tel þá skipan mála sem þar kemur fram ekki nægilega góða og ekki fullnægjandi. Ég tel að hún taki ekki nægjanlega mikið tillit til hinna ýmsu hagsmuna sem um er að tefla í þessu máli. Ef við hugsum okkur þetta út frá hlutföllum íbúa, þá teldi ég það alls ekki vera fullnægjandi. En ég er að hugsa um þetta í víðara samhengi en bara út frá íbúahlutfalli. Ég er að hugsa um atvinnugreinarnar sem byggja afkomu sína á hálendinu, að þær eigi aðkomu þarna líka. Ég er að hugsa um hin faglegu sjónarmið náttúruverndarsamtakanna og útivistarsamtökin líka. Þess vegna nefni ég það að ef umhvrh. hefði frítt spil til að skipa í slíka nefnd, þá getur hann valið einstaklinga sem uppfylla fleiri en eitt skilyrði. Eins og staðan er í dag hefur hann þetta fría spil og hann getur beitt 12. gr. Hann er hins vegar ekki skyldugur til þess og eins og ég skil þá tortryggni sem er í þjóðfélaginu, þá beinist hún að því að hræðsla er um það að hann muni ekki nota sér þennan möguleika, hann muni ekki beita þessu valdi sínu og þess vegna vilji menn að skylt sé að nefndin verði skipuð. Ég tel að ef ráðherranum er skylt að skipa nefndina og fylgi leiðbeiningum um hvernig hún eigi að vera samsett, þá eigum við að ná því að skipuð verði svæðisskipulagsnefnd þar sem öll sjónarmið geti komið fram og hægt sé að taka tillit til allra þessara þátta, íbúanna, fagsjónarmiðanna og atvinnugreinanna sem um er að tefla.