Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 17:42:11 (5826)

1998-04-28 17:42:11# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[17:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég viðurkenni það fúslega að ég er fákunnandi um þetta frv. sem hér hefur verið dreift, ég er fyrst að sjá það núna. Auðvitað hefði það átt að koma fram fyrr til þess að menn hefðu getað kynnt sér það betur.

Ég hef reyndar skilið það svo að það frv. útiloki þá aðferð sem hv. þm. er að ræða um. Að öðru leyti er ég alveg sammála þeim viðhorfum sem hv. þm. leggur fram. Hann segir að nauðsynlegt sé að til að mynda fulltrúar þeirra atvinnugreina sem byggja á hálendinu og jafnframt sjónarmið útivistarfólks fái að njóta sín í þessari nefnd. Það er ekki tryggt með frv. hæstv. umhvrh. Það sem mér finnst afskaplega mikilvægt er að þetta er annar stjórnarliðinn sem kemur hér með mjög alvarlega gagnrýni. Það er ekki hægt að skilja mál hv. þm. öðruvísi en svo en hann telji að sú breyting sem gerð er með frv. hæstv. umhvrh., sem er vissulega til bóta, gangi hvergi nærri nógu langt til að fullnægja þeim skoðunum og þeim þörfum sem hv. þm. segir að séu fyrir hendi.

Með öðrum orðum, hér hefur hv. þm. Árni M. Mathiesen, þingmaður fyrir Reykn., og einnig hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lýst mjög alvarlegum meinbugum á þeirri framvindu sem stjórnarliðið ætlar sér að hafa á þessu máli. Það tel ég vera mikilvægt vegna þess að kjarninn sem stendur upp úr máli hv. þm. Árna M. Mathiesen er þessi: Hann telur ekki að hagsmunir þess fólks sem hann er kjörinn til þess að þjóna séu tryggðir með frv. Ég er honum sammála.