Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:28:10 (5829)

1998-04-28 18:28:10# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:28]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var málefnaleg og yfirgripsmikil ræða hjá hv. þm. Ég ætla einungis að drepa við þann hluta ræðunnar sem lýtur einmitt að þeim átökum sem standa um frv. í tengslum við yfirráð og ráðstöfunarrétt á miðhálendinu.

Hv. þm. var tíðrætt um lýðræði í ræðu sinni og við þekkjum það auðvitað að hv. þm. er annt um að lýðræðishugsjónarinnar sé gætt. Hann sagði að hann fyrir sitt leyti og Alþb. og óháðir gætu fallist á þá tillögu sem liggur núna fyrir af hálfu hæstv. umhvrh. vegna þess að tekið sé tillit til sjónarmiða Alþb. og óháðra, sem er rétt. Jafnframt sagði hann að lýðræðisins væri gætt vegna þess, og hann sagði þetta svona, vegna þess að í nefndinni sem frv. gerir ráð fyrir sitja tveir fulltrúar Reykjavíkur, einn úr Reykjanesi og auk þess einn úr Vestfjörðum. Ég spyr hv. þm.: Er þetta hugmynd hans um lýðræði? Getur hann fallist á að það sitja þarna 12 aðrir fulltrúar en það kjördæmi sem hann er fulltrúi fyrir og er langmannflesta kjördæmi landsins hafi einungis tvo? Er það í anda hans lýðræðishugsjóna að einungis þrír fulltrúar komi úr hópi 67% þjóðarinnar? Hins vegar liggi það fyrir að 40 sveitarfélög sem hafa innan vébanda sinna 4% þjóðarinnar hafi 12 fulltrúa?

Herra forseti. Ég spyr hv. þm.: Er þetta lýðræðið sem hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur ár og síð barist fyrir oft og tíðum með aðdáunarlegum árangri? Ég leyfi mér að efast um það.