Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:29:59 (5830)

1998-04-28 18:29:59# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:29]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skilgreini ekki lýðræði samkvæmt strangri hausatölutalningu. Það hefur hingað til ekki truflað mig eins og ég gat um í ræðu minni þótt Íslendingar hafi atkvæðismagn hjá Sameinuðu þjóðunum á borð við Indverja, mörg hundruð milljón manna þjóð og það hefur ekki truflað Íslendinga hingað til að við njótum jafnræðis með Norðurlandaþjóðum á vettvangi í Norðurlandasamstarfi.

[18:30]

Það sem mér finnst skipta máli er að með þeirri breytingartillögu sem hér kemur fram er tryggt að fulltrúar allra kjördæma, allra landshorna, allra landshluta, komi að málinu. Ég tel að það hafi náðst vegna þess að við höfum beitt okkur fyrir því. Við beittum okkur fyrir því með málafylgju hér í þingsal og við gerðum það í nefndinni. Þar er ekki um þröngar flokkslínur að ræða. Þetta eru sjónarmið sem komið hafa úr ýmsum flokkum en ég tel okkur hafa náð ásættanlegri lausn, að tryggja fulltrúum allra landshluta aðkomu að þessu máli.

Hitt finnst mér ekki síður skipta miklu máli, að fulltrúar ríkisvaldsins komi ekki aðeins úr félmrn. heldur einnig úr umhvrn. Það er hitt meginmarkmiðið, sem við í þingflokki Alþb. og óháðra settum okkur, að tryggja skipulagslega einingu og að umhverfisþátturinn væri virtur að verðleikum.