Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:38:28 (5834)

1998-04-28 18:38:28# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KPál (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:38]

Kristján Pálsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Varðandi þá spurningu sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar upp um breytingar á skipulagslögum og þátt oddvita stjórnarflokkanna í því máli vil ég upplýsa að í Sjálfstfl. var samþykkt að leggja fram þessa breytingu við skipulags- og byggingarlög til kynningar, enda er sá frestur liðinn, samkvæmt ákvörðun þingsins, að hægt sé að leggja fram ný mál.

Í mínum huga hefur þetta frv. verið lagt fram í nafni Sjálfstfl. hvað sem líður hugmyndum formanns umhvn. í málinu. Ég held mér sé óhætt að segja, herra forseti, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hafi misskilið orð Árna Mathiesens hrapallega ef hann heldur að hann sé á móti málinu. Aftur á móti hefur það verið skilningur hans og minn einnig, að óþarft sé að gera breytinguna vegna þess að heimildir ráðherrans til að koma á svæðaskipulagi séu til staðar í skipulags- og byggingarlögum. En þar sem við heyrum að menn treysta því ekki að umhvrh. skipi slíka nefnd, þótt hann hafi gert það að vissu leyti, getum við auðvitað fallist á að hafa það í lögum að skipa eigi sérstaka svæðisskipulagsnefnd sem sérstaklega muni taka á svæðisskipulagsmálum miðhálendisins. Í Sjálfstfl. var það einróma samþykkt og því fullyrði ég, herra forseti, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur misskilið hv. þm. Árna Mathiesen hvað þetta varðar.