Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:43:42 (5837)

1998-04-28 18:43:42# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:43]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Auðvitað er alveg ljóst, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að við í þingflokki alþýðubandalagsmanna munum beita okkur fyrir því að þetta stjórnarfrv. verði samþykkt. Okkur er að vísu ljóst, eftir þau ummæli sem hér hafa fallið, að það er tregða í stjórnarliðinu. Við munum beita því afli sem við höfum til að knýja á um að stjórnarliðið standi á bak við sín eigin frv. Út af fyrir sig höfum við ekki mikið vald hér en þó nokkurn hluta af þinginu. Við munum reyna að beita því valdi til að tryggja að málið verði að lögum. Við hljótum að hafa allan rétt til þess og hljótum að láta á það reyna hvort stjórnarþingmenn standa með sinni stjórn eða ekki.

Ef allir ætla að hlaupa frá sinni ríkisstjórn er það náttúrlega hennar vandi. Ég tel það hafa verið mikilsvert sem fram kom hjá talsmanni Sjálfstfl., hv. þm. Kristjáni Pálssyni í þessu máli. Það breytir því ekki að við hljótum, eftir sem áður, að áskilja okkur rétt til að knýja á um að málið verði að lögum á þessu vori. Það er mikilvægt að okkar mati.

Auðvitað getum við ekki sett neinum skilyrði, hvorki einum eða neinum í þessu þingi, þar sem við erum í minni hluta. Við getum hins vegar beitt okkur fyrir málinu og munum gera það. Ég minni á að þótt stjórnarandstaðan ráði yfirleitt ekki miklu þá ræður hún þó einhverju þegar kemur að því að ljúka þingstörfum á vorin.