Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:45:22 (5838)

1998-04-28 18:45:22# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:45]

Sighvatur Björgvinsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er háttur þingflokks Sjálfstfl. að afgreiða mál frá sér með heimild til þess að leggja mál fram sem stjfrv. án þess að þeirri afgreiðslu fylgi hvaða efnislega afstöðu þingmenn Sjálfstfl. ætla síðan að taka til málsins öfugt við afgreiðslu allra annarra þingflokka þar sem efnisleg afstaða er tekin til máls sem fram er lagt þannig að ráðherrar vita í stjórnarsamstarfi hvort stuðningur er og hversu mikill hann er þá við málið. Þingmenn Sjálfstfl. afgreiða mál ekki svona.

Nú hefur komið í ljós að það er ekki bara Árni Mathiesen sem lýsti andstöðu við frv. --- það gerði hann hér áðan og vildi fá að breyta því --- heldur einnig flokksbróðir hans Kristján Pálsson sem hefur lýst þeirri skoðun sinni að ástæðulaust sé að samþykkja þetta frv. Það er því full ástæða til þess að spyrjast fyrir um fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar með málin þegar svo stendur á.

Það liggur líka fyrir og hefur verið staðfest að afstaða Alþb. er sú að Alþb. er reiðubúið að greiða atkvæði með frv. um sveitarstjórnarmál sem hér er til umræðu að því tilskildu að frv. þetta um breytingu á skipulags- og byggingarlögum verði samþykkt sem lög frá Alþingi. En nú hefur verið upplýst að það er ekki ætlun hæstv. umhvrh. að biðja um slíka afgreiðslu og fer þá staðan að verða nokkuð erfið í málinu þegar fyrir liggur að hæstv. umhvrh. ætlar að setja fótinn fyrir sitt eigið frv. svo vitnað sé nú í fræg ummæli sem féllu ekki alls fyrir löngu í þinginu um annað frv. sem annar ráðherra flutti. Hæstv. umhvrh. ætlar sem sé að setja fótinn fyrir sitt frv. Það er ekki stuðningur við frv. hjá þeim ræðumönnum sem talað hafa úr liði Sjálfstfl. og Framsfl. en Alþb. knýr mjög fast á um það að frv. verði afgreitt sem lög frá Alþingi í vor til þess að geta greitt atkvæði með sveitarstjórnarfrv.

Málið er orðið svo flókið, virðulegi forseti, að ég ítreka einfaldlega tilmæli mín um að menn ræði saman í kvöldverðarhléinu, þingflokksformenn, hæstv. ráðherra og forseti, og komist að einhverri niðurstöðu um það hvernig með þetta mál eigi að fara svo að það liggi fyrir áður en lengra er haldið.