Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 18:48:34 (5839)

1998-04-28 18:48:34# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[18:48]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég heyrði reyndar ekki þegar þessi umræða um fundarstjórn forseta hófst þannig að ég veit ekki nákvæmlega hvernig fyrirspurn hljóðaði um afgreiðslu máls. En ég þykist heyra það á umræðunum eins og þær eru í gangi nú hvað hafi verið til umfjöllunar, þ.e. spurning um hvort afgreiða eigi frv. sem mest hefur nú verið rætt hér en er alls ekki á dagskrá. Í fyrsta lagi er það frv. sem hér hefur aðallega verið til umræðu ekki á dagskrá.

En ég get endurtekið það sem ég sagði áðan í fyrri ræðu minni um það mál sem hér er á dagskrá að ég lagði fram fyrir þingið annað frv., frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, sem ég vonaðist til að gæti liðkað fyrir afgreiðslu sveitarstjórnarfrv. á þessu þingi, en það væri ekki gert ráð fyrir því að það frv. yrði lögfest í vor. Það kom fram í ræðu minni áðan. Það yrði lagt fram fyrst og fremst sem fylgifrv. með hinu frv. til þess að það mætti auðvelda afgreiðslu þess.

Hins vegar er alveg ljóst að frv. þetta er stjfrv. Það kom líka fram þá. Það er ljóst að frv. þetta er samþykkt af báðum þingflokkunum, stjórnarflokkunum. Ég veit að vísu ekki nákvæmlega hvernig aðrir flokkar afgreiða sín mál eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson upplýsti áðan og virtist mjög kunnugur því hvernig þingflokkur sjálfstæðismanna ynni sína vinnu. Ég get ekki gefið neinar skýringar á því eða lýsingar. Ég þekki það ekki. En frv. hefur verið afgreitt þar sem stjfrv. einnig og er lagt fram sem slíkt.

Ég geri því ráð fyrir að frv. verði samþykkt efnislega á haustþingi eins og það hefur nú verið lagt hér fram. Við vitum líka að það á ekki bara við um þetta frv. heldur virðist mér það nú vera með æði mörg frumvörp og ekki óeðlilegt, að löggjafarasamkoman hafi eitthvað um það að segja hvernig hún vill endanlega ganga frá frumvörpum áður en þau eru lögfest og það hlýtur að geta átt við um þetta frv. líka. En efnislega liggur það fyrir og ég geri ráð fyrir því að þannig verði það lagt fram aftur af umhvrh. á haustþingi.