Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 19:25:07 (5844)

1998-04-28 19:25:07# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[19:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. lauk máli sínu á sama atriði og hún hóf ræðu sína, þ.e. því er lýtur að stjórn miðhálendisins. Hv. þm. sagði að hún legði áherslu á að það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur kynnt verði samþykkt á þessu þingi, ef ekki þá verði hún að fá skýrar tryggingar fyrir því að við það verði staðið.

Ég spyr, herra forseti: Hverjar eru hinar skýru tryggingar sem hv. þm. sættir sig við? Það liggur nefnilega alveg ljóst fyrir að það frv. sem lagt er fram af hæstv. umhvrh. er grundvöllur þess að hún styður þetta mál með semingi.

Það olli mér hins vegar vonbrigðum að hv. þm. sagði að hún mundi ekki leggjast gegn því að fulltrúar náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustu kæmu að stjórn miðhálendisins. Nú liggur það einfaldlega fyrir að samkvæmt því frv. sem hv. þm. hefur lýst yfir miklum vilja að verði samþykkt á þessu þingi er ekki gert ráð fyrir því að fulltrúar náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustu komi að þessu. Hins vegar gerir frv. ráð fyrir því að þar verði tólf fulltrúar sveitarfélaga, einungis tveir úr því kjördæmi sem hv. þm. er fulltrúi fyrir.

Hv. þm. var til skamms tíma hluti af stjórnmálahreyfingu sem barðist fyrir því að auka völd fólksins, barðist fyrir að efla náttúruvernd og m.a. hefur margoft í ræðum sínum talað um nauðsyn þess að varðveita miðhálendið fyrir útivistarfólk. Ég spyr þess vegna, herra forseti: Hvernig getur hv. þm. varið það fyrir sjálfri sér að styðja frv. sem hún sjálf lýsir yfir að hún telji að gangi alls ekki nógu langt gagnvart aðilum sem ekki fá samkvæmt því að koma að stjórn miðhálendisins? Ég sé ekki annað í þessu en mjög alvarlega þverstæðu og bið hv. þm. að skýra hana fyrir mér.