Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 19:27:04 (5845)

1998-04-28 19:27:04# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[19:27]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði í máli mínu að ég hefði mikla samúð með því sjónarmiði, (Gripið fram í.) ég mundi jafnvel vilja beita mér fyrir því, vegna þess að það er auðvitað Alþingi sem fer með löggjafarvaldið. Ég lít ekki svo á og mér fannst það koma fram í máli hæstv. umhvrh. að sú skipan sem lögð er til í þessari tillögu sé ekki alheilög. Það er ekkert fráleitt að við gætum komið okkur hér saman um hugsanlega aðra skipan, einhverja tilfærslu á fulltrúum. Ég teldi það mjög æskilegt að fulltrúar náttúruverndarsamtaka og ferðaþjónustunnar kæmu að þessu máli, þ.e. þeir aðilar sem nýta hálendið fyrst og fremst.

Ég tel að með þeirri tillögu sem lögð hefur verið fram séu menn að tryggja það, sem ég gerði að meginskilyrðum. Annars vegar það að miðhálendið sé skipulagt sem heild, hins vegar að að því komi fulltrúar allra landsmanna. Við getum deilt um hlutföllin þarna á milli. Við Reykvíkingar erum rúmlega 100 þúsund talsins og erum stór hluti þjóðarinnar og eigum mikilla hagsmuna að gæta. En það eiga þeir líka sem eiga land að miðhálendinu og hafa nýtt það og við megum auðvitað ekki troða á þeirra rétti. En málið gengur út á það að reyna að ná samkomulagi um einhverja þá leið sem geti leitt til sátta. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér finnst sú leið sem þingflokkur jafnaðarmanna leggur til hreint ekki ásættanleg.

Hvað varðar skýrar tryggingar, þá verður það að koma í ljós hér á næstu dögum hvað vinnst í þinginu, hvað við komumst langt. Slíkar skýrar tryggingar eru auðvitað hreinar og klárar yfirlýsingar ráðherra um það að þeir muni leggja frv. fram í síðasta lagi næsta haust. En ég legg áherslu á að ég vil helst ná því fram hér í vor.