Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 19:29:25 (5846)

1998-04-28 19:29:25# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[19:29]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Þau sjónarmið sem munu takast á varðandi skipulag miðhálendis og stjórn á því eru annars vegar sjónarmið útivistarfólks, sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson ber fyrir brjósti, og hins vegar eru það sjónarmið sem gæta allt annarra hagsmuna. Þess vegna spyr ég, af því að hv. þm. hefur lýst því yfir að hún hafi mikla samúð með sjónarmiðum náttúruverndar og útivistar: Hvernig stendur þá á því að hún getur fallist á að styðja þetta frv. þegar það er alveg ljóst, kristaltært, að samkvæmt því fá þessir aðilar ekki neina aðkomu að málinu? Mér finnst það sem hv. þm. segir vera fullt af þverstæðum og ég get ekki sjálfur skilið hvernig stendur á því að hún, sem fulltrúi fyrir þetta mannflesta kjördæmi, Reykjavík, fellst á að Reykvíkingar fái aðeins tvo fulltrúa meðan sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu fá tólf fulltrúa, kannski fjórtán, ef þessir hæstv. ráðherrar skipa menn úr sínum kjördæmum eins og er nú plagsiður þeirra. Það skiptir þó ekki máli.

[19:30]

En það er alveg ljóst að ef til átaka kemur í þessari stjórn --- svo verður líklega --- þá bendir allt til þess að það muni vera átök milli einmitt fulltrúa þéttbýlisins, sem hv. þm. er fulltrúi fyrir, og hins vegar dreifbýlisins. Og hún er að lýsa yfir stuðningi við frv. sem gerir það alveg klárt að ef til slíkra átaka og ágreinings kemur, ef það kemur til atkvæðagreiðslu, þá er hún að leggja því lið að sjónarmið hennar kjördæmis verði fyrir fram undir. Það er felst í þessu frv.

Ég get ekki sem Reykvíkingur stutt þetta. Ég get ekki sem fulltrúi þéttbýlisins stutt þetta. Mér finnst að það hefði verið lágmark að þeir væru a.m.k. hálfdrættingar. Þá hefði ég skilið að hv. þm. hefði fylgt frv. Sjálfum finnst mér auðvitað að það hefði átt að gera þetta öðruvísi. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með þennan málflutning hjá hv. þm.