Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 21:54:26 (5851)

1998-04-28 21:54:26# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[21:54]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að endurtaka það sem ég sagði áður um stöðu málanna hvað varðar miðhálendisskipulagið. Það er nú til umfjöllunar í nefndinni sem starfar samkvæmt hinum eldri skipulagslögum og það hafa, eins og hv. þm. vitnaði reyndar til, komið fjölmargar athugasemdir frá hinum ýmsu aðilum. Ég veit ekki hvað það er þykkt skjal en ég veit að þær eru margar og þær eru nú þar til umfjöllunar. Ég hef framlengt starfstíma nefndarinnar þannig að hún geti starfað allt til 1. desember til þess að vinna úr þessum tillögum. Ég er alveg sannfærður um að Skipulagsstofnun muni ekki klára sína vinnu á þeim mánuði sem þar líður á milli, frá 1. desember til áramóta, til þess að skila umhvrh. sínum tillögum um málið. Ég er líka sannfærður um að málið verður ekki frágengið áður en ný nefnd tekur til starfa samkvæmt þessu frv., verði það samþykkt, þannig að mín afstaða í því efni liggi alveg klár fyrir. Ég er sannfærður um að sú nefnd mun hafa alla aðstöðu til að koma að málinu verði hún til, samþykki löggjafinn það að gera þetta frv. sem nú hefur verið lagt fram að lögum.

Ég geri mér vonir um að svo verði. Ég þykist fullviss um að það verði lögfest á haustþingi. Það kom fram líka í umræðum fyrr í dag að ekki væri gert ráð fyrir því að það yrði lögfest á þingi nú fyrir þinglokin.

Auðvitað er hægt að breyta lögum. Það er hægt að breyta afstöðu þings. Það er hægt að breyta meira að segja, þó síðar verði, ef löggjafinn kemst að því að það skipulag sem hér er verið að leggja til ætti að vera einhvern veginn öðruvísi, þá breytir löggjafinn væntanlega þeim lögum.

Það þýðir hins vegar lítið að tala um að það hefði verið betra að samþykkja frv. þáv. hv. umhvrh. Eiðs Guðnasonar þegar það var lagt fram. Það var ekki vilji til þess í þinginu. Mér sýnist hins vegar vera fullur vilji til þess í þinginu nú að samþykkja það frv. sem hæstv. félmrh. hefur lagt fram og er hér til umræðu, þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga. Við sjáum það á nefndarálitunum sem hér hafa komið fram að mikill meirihlutavilji er fyrir því í þinginu.