Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 22:24:21 (5858)

1998-04-28 22:24:21# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[22:24]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það var dapurlegt að hlýða á ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur og skynja það mikla niðurlag sem fólst í ræðunni. Hv. þm. sker sig frá öðrum þingmönnum í þessum sal að því leyti til að hún sló sig til riddara í fjölmiðlum vegna þess að hún sagði að hún væri á móti því fyrirkomulagi sem var lagt fram. Nú hefur hún haldið heila ræðu og gumar af því að það sé henni að þakka að það frv., sem hefur orðið að aðalumræðuefni í kvöld, er lagt fram.

Hver er hinn mikli sigur hins glæsilega riddara sem kom á hinum hvíta hesti Reyknesinga og ætlaði að bjarga rétti þeirra? Einn fulltrúi af 18 kemur úr Reykjanesi en 13--15 fulltrúar koma frá þessum 4% sem búa í 40 sveitarfélögum eða eitthvað örlítið meira.

Herra forseti. Það er mjög langt síðan ég hef séð einn glæstan riddara falla jafnherfilega af baki eins og hv. þm. gerði í ræðu sinni. Það var satt að segja ömurlegt á að horfa og hlýða.