Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 23:46:21 (5871)

1998-04-28 23:46:21# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[23:46]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni fyrir þessa prýðilegu ræðu sem mér þótti fróðleg að mörgu leyti. Ég vil sérstaklega þakka honum fyrir hvernig hann tók á málefnum útlendinga. Ég skildi mál hans þannig að hann teldi að það ætti m.a. að veita þeim, hvaðan sem þeir kæmu, kjörgengi til sveitarstjórna. Mér þótti það nýstárleg hugmynd en ég er afar hrifinn af henni og þakka hv. þm. fyrir það.

En það sem ég kom aðallega upp til þess að ræða var þó atriði sem var að finna í upphafi ræðu hv. þm. þegar hann var að ræða einmitt um miðhálendið og eignarrétt og ráðstöfunarrétt á miðhálendinu. Hv. þm. sagði að það þyrfti í rauninni ekki að deila um það hver réði fyrir miðhálendinu vegna þess að fyrir þinginu lægi frv. sem mundi skera úr um eignarréttinn. Og eignarrétturinn samkvæmt ræðu hans mun væntanlega, taldi hann, vera í höndum þjóðarinnar eftir að þjóðlendufrv. hefur verið samþykkt.

Herra forseti. Ég get ekki fallist á þessa skilgreiningu hv. þm. Ég held að hægt sé að halda því fram með fullum rétti að þó maður hafi eignarrétt yfir tilteknum hlut þá þýði það ekki endilega að maður hafi ráðstöfunarrétt yfir honum eða maður stjórni honum.

Og ég bendi, herra forseti, hv. þm. á það fordæmi sem við höfum einmitt af auðlindinni í hafinu. Lögin segja það algjörlega fortakslaust að auðlindin í hafinu, fiskurinn í sjónum, sé sameign þjóðarinnar. Um þetta höfum við margoft rætt á þinginu og enginn gengur gruflandi að þessu.

Hins vegar veit hv. þm. jafn vel og ég að þjóðin hefur ekki ráðstöfunarrétt yfir þessu. Þarna er alveg ljóst að eignarréttinum fylgir ekki ráðstöfunarréttur. Og ég óttast það, herra forseti, að það sama muni gilda um miðhálendið að þó að eign þjóðarinnar verði slegið á miðhálendið þá dugi það alls ekki til þess að tryggja ráðstöfunarrétt þjóðarinnar yfir miðhálendinu. Það er þess vegna sem ég er alveg á móti þessum frv. sem hér hafa komið fram og varða einmitt miðhálendið. Ég spyr hv. þm. þegar hann heyrir þessi rök mín: Getur hann ekki verið mér sammála um að fordæmið úr hafinu og sameignarákvæðið skapi nokkurn ótta í hugum manna?