Sveitarstjórnarlög

Þriðjudaginn 28. apríl 1998, kl. 23:50:53 (5873)

1998-04-28 23:50:53# 122. lþ. 113.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 122. lþ.

[23:50]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er í sjálfu sér nokkurt vægi fólgið í þeim rökum að fyrst sveitarfélögum er falinn sá trúnaður að ráða fyrir tilteknum svæðum landsins, hvers vegna má þá ekki láta þau líka ráða fyrir til að mynda miðhálendinu. Miðhálendið er hins vegar sérstakt að því leyti til að þar býr enginn maður. Þar hefur engin byggð verið frá örófi alda og miðhálendið hefur meira að segja verið svo til ókannað þangað til á síðustu öld. Þess vegna hefur þjóðin alist upp við að líta svo á að þetta sé eign hennar allrar sameiginlega. Vaxandi útivist Íslendinga, þegar þeir hafa leitað inn á miðhálendið, hefur frekar styrkt þá í þessari trú.

Ég tel, herra forseti, líka vegna þess að það liggur fyrir, eins og hv. þm. benti á, að sennilega munu lyktir þjóðlendufrv. verða þær að eign þjóðarinnar verði slegið á þetta, að því eigi á einhvern hátt að fylgja ráðstöfunarréttur líka. Sá háttur sem er hafður á í þeim frv. sem hafa verið nokkuð til umræðu, þ.e. að það verði gert í gegnum sveitarfélögin, er mér ekki geðþekkur. Ég tel að að sá stóri hluti þjóðarinnar sem býr fjarri miðhálendinu og kemur einungis á mjög veigalítinn hátt að stjórnun á nýtingu þess að meðferð þess samkvæmt þeim frv. sem liggja fyrir, sé allsendis ófullnægjandi. Það brýtur í bága við skilning minn á hinu lýðræðislega hugtaki. Ég tel að það eigi að tryggja fjölmennum byggðarlögum á annan hátt miklu ríkari rétt að þessu.