Svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:33:43 (5876)

1998-04-29 10:33:43# 122. lþ. 114.92 fundur 328#B svör við fyrirspurn um kaup Landsbankans á veiðileyfum í Hrútafjarðará# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Viðskiptaráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að það tók óvenjulangan tíma að fá svar við þeirri fyrirspurn sem sneri að Landsbankanum. Ég held að það sé rétt að það hafi tekið um það bil þrjá mánuði. Til þess að ráðuneytið geti svarað fyrirspurn eins og hér er um að ræða þurfa upplýsingar að liggja fyrir frá þeim fyrirtækjum og stofnunum sem um er að ræða. Ítrekað var gengið eftir því við Landsbankann á sínum tíma, og það þekkir hv. þm., að þau svör bærust. Þegar svör bárust fyrst voru þau ekki nógu fullkomin og ég vildi fá fullkomin svör til þess að leggja fyrir þingið. Því miður tók það svona langan tíma.

Varðandi þá fyrirspurn frá hv. fyrirspyrjanda sem snýr enn að Landsbankanum og þá sérstaklega það sem snýr að Hrútafjarðará, þá sendi ég bréf 12. mars sl. til forseta Alþingis og Ríkisendurskoðunar í samráði við hv. fyrirspyrjanda um að Ríkisendurskoðun svaraði þeim fyrirspurnum sem þar var um að ræða eða gæfi ráðuneytinu upplýsingar um þær fyrirspurnir sem þar var um að ræða. Það var gert í ljósi þess sem þá hafði gerst, þ.e. að upplýsingar sem mér höfðu áður borist frá Landsbankanum voru ekki réttar. Þess vegna vildi ég í samráði við fyrirspyrjanda og forseta Alþingis að málið yrði unnið þannig að upplýsingarnar kæmu beint frá Ríkisendurskoðun. Þetta var gert í fullri sátt við hv. fyrirspyrjanda og hæstv. forseta Alþingis.

Nú hafa þessar upplýsingar enn ekki borist. Síðast í morgun átti ég viðræður við ríkisendurskoðanda um málið. Hann treysti sér ekki til að svara þessu vegna anna áður en þingi lýkur.

Nú er það hins vegar svo og hefur áður komið fram hjá hv. fyrirspyrjanda að hún er tilbúin til að stytta þann tíma sem um er spurt og ég fagna því. Þar af leiðandi hef ég nú þegar sett það í gang að aflað verði upplýsinga frá Landsbankanum, en ekki Ríkisendurskoðun, um þau efni sem um getur í fyrirspurninni og ég á von á því að í næstu viku geti ég lagt fyrir þingið svör við þeim spurningum sem þar um ræðir.