Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 10:47:03 (5883)

1998-04-29 10:47:03# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), SvG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[10:47]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Fyrir okkur liggur dagskrá 114. fundar Alþingis, miðvikudaginn 29. apríl 1998 kl. 10:30 árdegis. Á dagskránni eru þrjú mál: sveitarstjórnarlög, stjfrv., þjóðlendur, stjfrv., og eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu, stjfrv.

Það sem vekur athygli mína, herra forseti, er að á dagskránni er ekki frv. til laga um breytingu á lögum um skipulags- og byggingarmál sem hæstv. umhvrh. kynnti í öðrum umræðum.

Nú er mér ljóst, herra forseti, að um þetta mál eru mjög skiptar skoðanir. Mér er líka ljóst að hæstv. ráðherra umhverfismála hefur ekki lagt þetta frv. fram í neinni alvöru þó að það heiti stjfrv. Hann hefur sjálfur sagt að í raun og veru ætlist hann ekki til þess að málið fái hér neina meðferð. Ég er engu að síður þeirrar skoðunar að Alþingi eigi ekki að láta bjóða sér svona leikaraskap. Þess vegna ætti að taka málið á dagskrá og láta reyna á það hvort afbrigði verði veitt fyrir því að málið geti komið til umræðu.

Þess vegna spyr ég hæstv. forseta: Hverju sætir það að þetta frv. er ekki á dagskrá með ósk um afbrigði? Er það vegna þess að ráðherrann hafi beðið um að málið yrði ekki sett á dagskrá? Ef það er þannig hlýtur það náttúrlega, ásamt öðru, að hafa áhrif á umræðuna hér um 1. dagskrármálið, þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga sem væntanlega kemur til meðferðar á eftir.

En spurning mín til forseta er þessi: Hverju sætir það að málið er ekki á dagskrá þessa fundar?