Frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:09:33 (5896)

1998-04-29 11:09:33# 122. lþ. 114.93 fundur 329#B frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum# (um fundarstjórn), Flm. SvG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:09]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar undirtektir og þann stuðning sem fram hefur komið við sjónarmið mín í þessu máli, m.a. frá hv. 4. þm. Vestf. um að eðlilegt sé að taka málið á dagskrá, hvaða afstöðu sem menn hafa til þess og ég þakka einnig þann stuðning sem fram kom við þau sjónarmið hjá hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur.

Ég tel að þar með sé komið fram að það sé bersýnilegt að talsmenn þingflokka stjórnarandstöðuflokkanna séu tilbúnir að greiða fyrir því að málið komist á dagskrá og komist til umræðu. Enginn þeirra hefur út af fyrir sig endanlega skorið upp úr með það hvaða afstöðu menn kunna að hafa til málsins en menn munu styðja að það komi til umræðu og það er mikilvægt. Ég vil sérstaklega þakka fyrir það.

Jafnframt vil ég fara fram á það, herra forseti, að það verði ekki látið bíða þar til síðar í dag heldur verði haldinn fundur t.d. í hádegishléinu með formönnum þingflokkanna þar sem ákvörðun um þetta mál verði tekin og hún verði kynnt fljótlega vegna þess að staðreyndin er sú að þetta frv. er hluti sveitarstjórnarlagafrv. að mati okkar alþýðubandalagsmanna þannig að það er óhjákvæmilegt að þetta mál komist á dagskrá.

(Forseti (ÓE): Forseti mun boða þingflokksformenn til fundar í hádeginu í dag, væntanlega kl. hálfeitt en tilkynnir það síðar.)