Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 11:59:26 (5900)

1998-04-29 11:59:26# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[11:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eins og hv. þm. hugsi með tveimur heilum í einu. Annar heilinn lýsir yfir fullum stuðningi við frv. hæstv. umhvrh. en hinn heilinn lýsir því hins vegar yfir að það væri æskilegt að aðrir aðilar sem núna eru útilokaðir frá stjórn um skipan miðhálendisins fái að koma að því.

Herra forseti. Ég sé ekki annað en þetta sé alvarleg þverstæða. Hún er þeim mun alvarlegri sem um er að ræða helsta bitbeinið í þessari deilu. Ég ætla ekki að fara að svara fyrir hönd hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar en hv. þm. Kristján Pálsson sagði áðan að hann skildi ekki hvernig stæði á andstöðu hv. þm. en síðan taldi hann upp nákvæmlega þau atriði sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lýsti í ræðu sinni í gær og segir að það væri æskilegt að breyta frv. einmitt með þeim hætti.

Ég verð að segja, herra forseti, að niðurstaða mín er sú að ég skil að sjálfsögðu málflutning hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar. En mér er gersamlega fyrirmunað að skilja hvernig rökhringekjan gengur í höfði hv. þm. Kristjáns Pálssonar. Ég segi það satt, herra forseti. Ég spyr hins vegar hv. þm.: Ætlar hann að beita sér fyrir því að aðilar þessara samtaka sem hann nefndi sjálfur fái aðild að þessari stjórn? Í annan stað: Hvernig getur hv. þm. varið það að fara til sinna kjósenda sem hafa áhuga á því að koma að stjórn miðhálendisins og segja: Þið fáið einn af 15 fulltrúum eða einn af 18 fulltrúum? Hvernig í ósköpunum getur hann varið það fyrir kjósendum sínum að íbúar þéttbýlisins eru meira og minna útilokaðir frá sanngjörnum áhrifum á 43% af flæmi landsins? Það er það fullkomlega út í hött að ætla að það sé eitthvert lýðræði sem felst í þessari tillögu. Hv. þm. hefur sýnt áður að hann er sanngjarn maður og hann er sannur lýðræðissinni. Hvernig í ósköpunum getur hann þá komið hingað og varið þetta?