Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 13:46:10 (5908)

1998-04-29 13:46:10# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[13:46]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það stóra mál sem hér er til umræðu, frv. til sveitarstjórnarlaga, kallar eðlilega á mikla umræðu í þinginu þegar málið kemur frá hv. félmn. til 2. umr. með tillögum um breytingar á frv. þó ekki veigamiklar á heildina litið og tvískipt álit úr félmn. þar sem fulltrúar þingflokks jafnaðarmanna hafa skilað minnihlutaáliti en aðrir mynda meiri hluta þó með fyrirvörum sé.

Þetta mál á sér langan aðdraganda sem kunnugt er og það mál sem tengist því mjög í umræðunni, skipulagslögin, áttu sér einnig afar langan aðdraganda hvað undirbúning snerti og sennilega lengri en það frv. sem hér er meginmál til umræðu. Ég ætla eins og fleiri að fjalla um skipulagsþáttinn sem snýr að þessu máli og stjórnsýslu sveitarfélaga á landinu með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Áður en ég kem að þeim þætti vil ég fara fáeinum orðum um frv. og aðkomu mína að því máli sem þar er á ferðinni. Ég vil þó leyfa mér, virðulegur forseti, að nefna það, og ég hef reyndar nefnt það við hæstv. forseta áður, að ég vildi gjarnan að nokkrir þingmenn vissu af því að ég er að ræða málið og vil víkja að því sem fram hefur komið í umræðu af þeirra hálfu. Ég vildi ítreka þetta, og fyrir utan hæstv. umhvrh., sem ég geri ráð fyrir að hér sé nálægur og hæstv. félmrh., vil ég nefna til formann umhvn., hv. 11. þm. Reykv., Ólaf Örn Haraldsson, og talsmann þingflokks jafnaðarmanna í umræðunni, hv. 5. þm. Reykn., Rannveigu Guðmundsdóttur, og einnig mun ég víkja nokkuð að máli hv. 13. þm. Reykv. fyrr í umræðunni, Jóhönnu Sigurðardóttur þannig að ég óska eftir því að þessir hv. þingmenn verði látnir vita af því þar sem ég kann því ekki vel að ræða um málflutning manna án þess að þeir hafi tök á að bregðast við eða fylgjast með því sem fram kemur.

Virðulegur forseti. Ég leyfði mér á 120. löggjafarþingi að flytja frv. til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Það hefur verið flutt tvívegis síðan og hefur legið fyrir hv. félmn. á þessu þingi eins og á fyrri þingum. Þetta frv. laut kannski ekki að efnislega veigamiklum málum í löggjöfinni, en þó málum sem þurftu lagfæringar við að mínu mati og sem verið er að taka á með vissum hætti í þessu frv. Ég vil aðeins nefna það í upphafi að ég tel það góðra gjalda vert að frv. sem við ræðum til sveitarstjórnarlaga tekur á vissum þáttum sem ég hafði gert tillögu um áður en frv. var mótað og hefur verið tekið tillit til þess í nokkrum greinum.

Breytingartillögur mínar hafa lotið að því að sveitarfélög fái sjálf að ráða nafngiftum sínum, ráða hvað þau heita, og við þeirri brtt. er í raun orðið þó óbeint sé í þessu frv. Ég held að það sé ráð sem betur hefði fyrr verið brugðið á, en betra er seint en aldrei í þessu máli því að mikið gengur á í sveitarstjórnarstiginu varðandi nýmótun þess á marga lund þannig að á þetta mun reyna.

Það mætti margt um gildandi lög um þetta efni segja sem leitt hefur til hremminga af ýmsum toga varðandi nafngiftir sveitarfélaga. Vonandi geta menn innan rýmri marka valið góð nöfn á ný sveitarfélög, endurmynduð sveitarfélög og nýtt þar með aukið svigrúm sem hér er stefnt að að veita. Það kemur af sjálfu sér með þessari tillögu að kaupstaðir sem voru nefndir í eldri lögum falla fyrir borð sem slíkir, skilgreining á sveitarstjórnarstigi, og það er tekið undir þá tillögu mína að framkvæmdastjóri nefnist sveitarstjóri og að talsmaður sveitarstjórnar nefnist oddviti. Þetta er allt til bóta, til einföldunar og til að gera sveitarstjórnarstigið gagnsærra en áður var til auðveldunar fyrir allan almenning í landinu að átta sig á þessu meginstjórnsýslustigi fyrir utan sjálft ríkið. En gildandi löggjöf til þessa hefur valdið því að það hefur verið mikill tröppugangur á og eins konar virðingarröð ef svo má segja samanber keppni sveitarfélaga hér um skeið að fá kaupstaðarréttindi sem er vel þekkt og tengdist áfengislöggjöfinni um tíma ef ég man rétt. En þetta verður sem betur fer brátt úr sögunni. Þá eru felld út úr frv. orðin ,,borgarstjóri/bæjarstjóri``, ef ég hef lesið rétt í málið, þannig að það sé ekki verið að lögbjóða slíka titla, og einnig er tekið undir þá tillögu sem ég flutti um byggðarráð sem meginnefnd innan sveitarstjórnar. Ég þakka hv. félmn. og þeirri nefnd sem undirbjó þetta frv. að hafa tekið undir þau sjónarmið. Mér er kunnugt um að þetta mál lá þar fyrir til skoðunar á mótunarstigi.

En það er einn skafanki, það er einn hortittur eftir sem ég hefði viljað að hyrfi úr löggjöfinni og það er í 11. gr. sem stendur eftir og ég sé ekki að þar sé lögð til nein breyting á frv. eins og það kom fyrir, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórnir nefnast bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn. Byggðarráð skv. 38. gr. nefnast byggðarráð, bæjarráð eða hreppsráð`` --- ég vona að ég sé að vitna í þskj. frá réttu þingi því þetta eru orðnar margar útgáfur. Jú, mér sýnist þetta standa --- ,,og framkvæmdastjóri sveitarfélagsins nefnist bæjarstjóri eða sveitarstjóri.

Í Reykjavíkurborg nefnist sveitarstjórnin borgarstjórn, framkvæmdastjóri sveitarfélagsins borgarstjóri og byggðarráð sveitarfélagsins borgarráð.

Heiti sveitarstjórnar, byggðarráðs og framkvæmdastjóra er ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins.``

Á þessari 11. gr. eru engar brtt. fyrirliggjandi og mér finnst þetta ekki góð afgreiðsla þegar verið er að reyna að sníða af þessar silkihúfur sem voru yfir flokkun á einstökum sveitarfélögum þar sem var verið að skipa þeim í virðingarröð.

Ég tók það fram í tillögum mínum um að afnema titlatog af þessu tagi að auðvitað væri það sveitarstjórn í sjálfsvald sett að velja viðeigandi heiti að hennar mati á sína embættismenn sem aðra og er það sjálfsagður hlutur. En að lögbjóða það, hvers vegna í ósköpunum, hv. félagsmálanefndarmenn í meiri hluta, hæstv. félmrh., virðulegur forseti, sem á að taka við þessu máli frá þinginu, á að búa svona um hnútana eins og hér er, að vera að flokka sveitarstjórnir varðandi lögboðið heiti í bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn? Er ekki, virðulegur forseti, sveitarstjórn hið almenna heiti? Er hreppsnefnd ekki sveitarstjórn? Er bæjarstjórn ekki sveitarstjórn? Ég vil beina því til formanns og varaformanns félmn., virðulegur forseti, að 11. gr. verði tekin til sérstakrar athugunar milli umræðna fyrst brtt. koma ekki fram við greinina þannig að þessir hortittir sem er að finna í frv. að þessu leyti verði hreinsaðir frá. Við erum að móta heildarlöggjöf.

Reykjavík er að sjálfsögðu sveitarfélag sem hvert annað sveitarfélag í landinu, má kalla sig borg og hefur full efni á því, en það á ekki að lögbjóða það. Þetta er sveitarfélag í Reykjavík. Þar er oddviti. Hann má heita borgarstjóri samkvæmt samþykkt sveitarfélagsins. En á að lögbjóða það? En verst af öllu er að deila sveitarstjórnunum upp í þessa þrískiptingu, bæjarstjórn, hreppsnefnd eða sveitarstjórn þegar hið almenna heiti er að sjálfsögðu og á að vera sveitarstjórn sem almennt heiti og ekki vera að búa til neina undirflokka þar að lútandi.

Ég óska því eindregið eftir því, virðulegi forseti, að á þessa grein verði litið. Mér er nær að halda að hér sé um vangá að ræða af hálfu hv. þingnefndar að gera tillögu um þetta með þessum hætti við 2. umr. og bið um að ekki verði litið á þetta sem einhverja harða gagnrýni af minni hálfu. Mér finnst þetta hins vegar vera nauðsynlegt og væri í samræmi við aðra hreinsun í þessum efnum sem væri að finna í frv. og sem nefndin tekur undir og við eigum ekki að lögbjóða þetta efni með þessu móti við afgreiðslu málsins.

Í þessu máli, virðulegi forseti, er að finna ýmis efni önnur en ég hef hér vikið að sem er skynsamlega ráðið að gerðum brtt. af hálfu félmn. Það er auðvitað fengur að því fyrir sveitarstjórnarstigið að fá endurunna löggjöf þó að breytingarnar séu kannski ekki stórkostlega róttækar, enda ekki út af fyrir sig kannski þörf á því að taka þar stærra á en þarna er verið að gera. Ég rifja það upp af þessu tilefni að þegar síðasta heildarendurskoðun var gerð á sveitarstjórnarlögum, ef ég man rétt 1986, þá flutti ég allvíðtæka brtt. við málið þess efnis að settur yrði inn nýr kafli um þriðja stjórnsýslustig, héraðsnefndir eða héruð eins og það var kallað í þeirri tillögu. Það er eina atrennan hér á Alþingi að mér er kunnugt um að festa í löggjöf og útfæra hugmyndina um þriðja stjórnsýslustig sem lýðræðislega kjörið stjórnsýslustig í landinu. Þetta margoft rædda mál hlaut ekki undirtektir. Meðal annars núna í tengslum við umræðuna um skipulagsþátt þessa máls þá hefur þetta borið á góma, spurningin um þriðja stjórnsýslustigið. Þó að þetta varði ekki sveitarstjórnir að sjálfsögðu vegna þess að þarna er hugmynd um annað alveg sjálfstætt stjórnsýslustig á ferðinni þá er ég enn þeirrar skoðunar að það væri til velfarnaðar fyrir landið allt að sett verði upp þriðja stjórnsýslustigið. Það eru miklir annmarkar sem standa í vegi fyrir byggðaþróun í landinu og að sporna við þeirri hrörnun landsbyggðarinnar sem við horfum framan í víða, því miður, og mörg atriði sem fengju betri stöðu ef menn tækju til þess ráðs að setja hér upp þriðja stjórnsýslustigið. Ef menn ætluðu sér í raun að færa verkefni ríkisins nær fólkinu vítt um landið þá verður það ekki gert svo vel sé nema hafa stjórnsýslustig til að taka við því nægilega stórar einingar til að hafa burði til þess. Og í stað þess að vera að bítast um flutning á einstökum stofnunum, með miklum fyrirgangi og leiðindum oft og tíðum, að rífa þær upp úr höfuðstaðnum, sumt af því getur átt fullan rétt á sér en það er ekkert sem munar um, þá á að færa samræmt þjónustu ríkisins, byggja hana niður í miðstjórninni, halda hér kjarna sem tilheyrir höfuðstað bæði í meginstjórnsýslu og stofnunum en færa þau verkefni þar sem um einhver veruleg verkefni er að ræða á vegum ríkisins og þau störf sem fylgja samræmt út í héruð í landinu sem myndi þriðja stjórnsýslustigið. Ef við hefðum ratað þessa leið á 8. áratugnum þegar sókn var í byggðamálum í landinu þá er ég alveg sannfærður um að staðan væri mun betri í landinu í heild heldur en reyndin hefur orðið.

[14:00]

Virðulegur forseti. Ég ætla þá að víkja að þeim þætti í umræðunni sem tengst hefur ákvæði til bráðabirgða í þessu frv. um sveitarstjórnir í landinu og taka þar á allmörgum þáttum sem hafa komið til umræðu og liggja í málinu. Ég tek fram að ég tel afar eðlilegt að fram fari mikil umræða um þetta mál, einnig í tengslum við frv., en ég hef margt við málflutning sem fram hefur komið að athuga og ég óttast að þar gæti menn ekki að sér eins og þyrfti að vera. Við erum sannarlega á ferð um dálítið hólótt land, svo ég segi ekki jarðsprengjusvæði því ég vil ekki að það verði sett neitt tundur í málið. Þetta er hólótt landslag sem við erum að ganga í og er gott að hér séu bændur í bland sem eru vanir þúfum til þess að horfa til með mönnum í því. Við þurfum að gæta okkar í hverju skrefi sem hér er stigið en við þurfum líka að gæta þess sem við höfum verið að gera á liðinni tíð.

Virðulegur forseti. Ég ætla að gera svolitla atrennu að því ef það gæti orðið til að skýra málið jafnt í mínum huga sem hugsanlegra áheyrenda, hv. þm., að fara yfir stöðuna eins og hún kemur mér fyrir sjónir að frágengnu því ef málið yrði til lykta leitt í meginatriðum eins og það er lagt hér fyrir og þá einnig að teknu tilliti til þess stjfrv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sem lagt var fyrir í gær.

Upphafsþátturinn er kannski sá að við erum með tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög, í landinu. Við erum ekki að breyta því með þessu frv. Við höfum hins vegar búið við mikla óvissu um eignarráð í landinu, eignarréttindi á óbyggðasvæðum á Íslandi. Þingið er að fást við að marka því máli braut til lausnar eða til úrskurðar með frv. til laga um þjóðlendur þar sem mörkuð er sú stefna samkvæmt frv. að um tvenns konar eignarrétt verði að ræða á yfirborði lands, annars vegar eignarlönd, hins vegar þjóðlendur sem eins konar almenninga svo að maður noti gamalt og gróið hugtak í umræðunni þó að þarna hafi verið brugðið á það ráð að kalla þetta öðru nafni.

Út úr þessu kemur niðurstaða en samkvæmt frv. á þessu að vera lokið árið 2007. E.t.v. kann að rísa ágreiningur sem fer þá dómstólaleið eða er úrskurðaður, óbyggðanefnd og réttarkerfið í landinu sker úr. En niðurstaða mun væntanlega fást á einum áratug eða svo í meginatriðum og þá liggur fyrir hvað er þjóðlenda og hvað er eignarland. Ég held að þarna sé í meginatriðum gott mál á ferðinni og þarft og hefði í raun fyrir löngu þurft að taka á þessum málum. Dómar hafa fallið þannig að þingið hefur þurft að taka á þessum málum og ég vænti þess og þykist sjá að verulegur hluti af því sem við tengjum við óbyggðir og miðhálendi muni teljast þjóðlenda að þessu búnu, eign ríkisins, eign almennings þar með, eign ríkisins fyrir hönd þjóðarinnar.

Þá er viðfangsefnið tvenns konar, þ.e. að skipuleggja landnotin bæði gagnvart eignarlöndum og þjóðlendum en ekki síst þjóðlendunum. Það er viðfangsefni skipulagslöggjafar sem grunnlöggjafar um það efni. Og hins vegar hvernig á að koma stjórnsýslunni fyrir. Eftir farveginum sem hér er markaður liggur málið þannig, og þá tek ég tillit til þess frv. og geri ráð fyrir að lögfest verði það frv. sem hér var lagt fram af hæstv. umhvrh. í gær, að á skipulagi þess sem við köllum miðhálendi í umræðunni og kallað hefur verið það í skipulagsvinnu undanfarinna ára verði tekið heildstætt hvað grundvöllinn varðar og það verði markað svæðisskipulag á þessum stóra hluta landsins þar sem gætt verði heildstæðra vinnubragða að boði laga, aðalskipulag þurfi að taka tillit til þeirra sjónarmiða sem þar eru sett í svæðisskipulagi og deiliskipulag sem verði aðgengilegt til skoðunar síðan útfært á þessum grunni. Þetta er að mínu mati skynsamleg niðurstaða, góð niðurstaða, miðað við það sem ella gæti orðið samkvæmt öðrum hugmyndum sem fram hafa komið og hafa viljað kannski einhverja aðra skipan mála. Ég tel að þessi niðurstaða sé í raun í býsna góðu samræmi við þá braut sem hefur verið mörkuð og hefur verið unnið að útfærslu á og er komið að á enda í tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands til ársins 2015. Þessu ættu allir að fagna sem hafa ýtt á og gert kröfu til þess að þarna yrði tekið heildstætt á málum að því er varðar skipulag.

Síðan kemur hinn þátturinn sem snýr að stjórnsýslunni og þá er stefnumörkunin sú að landinu öllu verði skipt upp á milli sveitarfélaga. Tillögur hafa verið markaðar þar að lútandi af tilkvaddri nefnd í því efni og það er sá þáttur sem að stjórnsýslunni lýtur.

Virðulegur forseti. Er þetta svo afleit niðurstaða í raun sem hér er að mótast? Ég hef oft tekið það fram í þessari umræðu að ég hefði sannarlega getað hugsað mér önnur máls\-tök. En ég hef frá byrjun, af því að ég kom að þessu máli árið 1990 á vegum tilkvaddrar nefndar á vegum fyrsta umhvrh. okkar á þeim tíma, lagt megináherslu á skipulagsþáttinn, heildstætt skipulag á svæðinu.

Virðulegur forseti. Hvaða hagsmunir verða settir í hættu með þessari niðurstöðu? Hvaða stóra áhætta er tekin með þessari niðurstöðu? Auðvitað búum við alltaf við þá áhættu að skipulag sé ekki að okkar skapi, skipulag sé ekki vel lukkað, taki ekki tillit til þeirra sjónarmiða sem hver og einn ber með sér. Það eru mismunandi hagsmunir í landinu. Við losnum ekki undan þeirri hættu þó að þetta svonefnda miðhálendi væri sjálfstæð stjórnsýslueining. Það losar okkur ekki undan þeirri áhættu sem fylgir skipulagsgerð sem kallar ætíð á niðurstöðu, einnig við endurskoðun. Sú áhætta er uppi þó að þetta miðhálendi væri undir stjórnsýslu ríkisins. Við erum hins vegar að marka hér þá stefnu að sveitarfélögin sem liggja að þessu svæði fari með stjórnsýsluna og þó að ég hefði talið að hitt ætti að vera til álita, að þetta yrði sérstök stjórnsýslueining, þá hef ég alltaf gert mér það ljóst að engin töfralausn væri í því fólgin að setja svæðið undir forsjá ríkisins, það væri engin töfralausn og þar væri alls ekki á vísan að róa að þau sjónarmið sem ég ber fyrir brjósti sérstaklega að því er varðar þetta svæði næðu í höfn frekar undir stjórnsýslu ríkisins heldur en sveitarfélaganna að teknu tilliti til heildstæðs skipulags þó.

Ég skal aðeins útfæra þetta nánar og líta til skipulagsþáttarins. Þá kem ég m.a., virðulegur forseti, að þeirri hörðu gagnrýni sem hér var fram borin af talsmönnum þingflokks jafnaðarmanna í gær, þar á meðal af hv. 13. þm. Reykv. í umræðunni, þeirri hörðu en samt þokukenndu gagnrýni sem borin var fram fram gagnvart þeirri tillögu sem liggur fyrir um skipulag miðhálendis Íslands.

Ég vil leyfa mér, virðulegur forseti, að draga fram einn þann aðila, hagsmunaaðila má kannski kalla það eða atvinnugrein, sem hefur hvað mestar áhyggjur vegna þessa skipulags. Hvaða atvinnugrein skyldi það vera? Við höfum heyrt nefnda ferðaþjónustu. Ég tel að sú gagnrýni sem frá ferðaþjónustu eða Ferðamálaráði hefur komið vera mjög óljósa og hún var endurtekin af fyrrverandi formanni Ferðamálaráðs í umræðu áðan. Ég er ekki viss um að hún sé að öllu leyti á rökum reist þó að hagsmunir ferðaþjónustu fari saman við margt af því sem ég ber fyrir brjósti í þessum málum og þetta svæði þurfi að skipuleggja með tilliti til þeirrar vaxandi atvinnugreinar og vaxtarmöguleika hennar. En megingagnrýnin, þunga gagnrýnin, hefur komið frá þeim sem horfa til nýtingar orkulindanna. Þaðan kemur þunginn í gagnrýninni. Þar eru svonefndir undirliggjandi hagsmunir hjá aðilum í þjóðfélaginu þungir. Þar er mikið fjármagn á ferðinni, mjög miklir draumar um stórframkvæmdir, draumar sem ég vona að margir hverjir eigi ekki eftir að rætast og tel að séu skýjaborgir. En það er aðilinn sem öðrum fremur talar inn í þetta landslag og sem hefur róið undir mjög fast, studdur m.a. af hugmyndum skipuleggjenda sem vilja sjá hálendinu skipt upp með uppbyggðum þeysivegum til þungaflutninga sem hafa kynt undir alla gagnrýni sem sett hefur verið fram eða verið efnt til í sambandi við þetta svæðisskipulag og dregið ýmsa, því miður, virðulegur forseti, að ég tel, á asnaeyrunum í því efni, sent fram ágætar liðssveitir sem eðlilega hafa áhyggjur af sínum hagsmunum, útivist.

[14:15]

Í þeirri vinnu sem fram hefur farið tel ég m.a. verðmætt, virðulegur forseti, að í fyrsta sinn er skipulega fitjað upp á öðrum umtalsverðum hagsmunum heldur en hagsmunum orkuiðnaðarins. Þeir hafa verið teknir með í spurningunni um það hvernig við ætlum að nýta það svæði sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir talaði áðan um að hefði að geyma verðmæt ósnortin víðerni. Þökk sé henni fyrir hennar hlut í að lyfta þeirri hugmynd. Ég tel mig hafa fært þetta mál fyrst inn í umræðu um umhverfismál, víðernin, hin ósnortnu víðerni eins og við köllum þau. Það orðalag sótti ég á sínum tíma í Stein Steinarr sem í kvæði sínu um Ísland talar um þessa ,,vængjuðu auðn með sín víðernin blá, hún vakir og sefur þó enn``. Í þessu máli eru hagsmunir en þeir eru ekki sömu og hinna sem fastast róa í gagnrýninni á þetta skipulag.

Ég er hér með Morgunblaðið, virðulegi forseti, frá 21. sept. 1997. Þar stendur á útsíðu: ,,Deilt á tillögu um svæðisskipulag miðhálendisins.`` Ég leyfi mér að vitna í það. Þetta er bara sýnishorn. Hið sama má finna í hinum formlegu athugasemdum:

,,Fulltrúar orkumála eru mjög gagnrýnir á tillögu, sem nú liggur fyrir um svæðisskipulag miðhálendisins.

Á ráðstefnu, sem haldin var í gær á vegum Félags skipulagsfræðinga og Verkfræðistofnunar HÍ kom fram að í skipulagstillögunni, sem nær til ársins 2015, er gert ráð fyrir að alls geti komið til framkvæmda orkuvinnsla sem nemur um 10.000 gwst. á ári af raforku á skipulagstímanum, en talið er að hér á landi sé hægt að vinna um 30 þúsund gwst. af raforku með hagkvæmum hætti þegar tillit er tekið til umhverfisáhrifa. Núverandi orkuvinnsla nemur um 5.000 gwst. á ári.

Þorkell Helgason orkumálastjóri sagði á ráðstefnunni að ef öll tækifæri, sem hugsanlega byðust á skipulagstímanum, yrðu nýtt gæti orkuþörfin orðið 28.000 gwst. á ári. Samkvæmt lauslegu mati gæti útflutningsverðmæti þeirrar stóriðju, sem myndi eða gæti bæst við frá og með þessu ári, numið 133 milljörðum króna.``

Ég læt þetta nægja, virðulegur forseti, til að undirstrika það sem ég hef sagt. Þeir sem mestar áhyggjur hafa af fyrirliggjandi svæðisskipulagi eru þeir sem dreymir stóra drauma um stórframkvæmdir í sambandi við stóriðju í landinu.

Í þinginu kom í gær fram tillaga, virðulegur forseti, um sjálfbæra orkustefnu. Ég geri ekki ráð fyrir að margir hafi veitt því athygli í pappírsbunkunum og dreifinni sem kemur inn á síðustu dögum þingsins. Í því þingmáli er hins vegar reynt að bregða upp annarri mynd af stöðunni sem gengur mjög í aðra átt en það sem ég var að vitna til.

Ég er þeirrar skoðunar að auðlindin sem menn tala um sé mun takmarkaðri en látið er í veðri vaka. Ég tel að hún sé ekki stærri en svo að þjóðin þarf á henni að halda. Það skynsamlegt að teknu tilliti til náttúruverndar að gera ráð fyrir að þjóðin þurfi á henni að halda í tíð allra næstu kynslóða á fyrri hluta komandi aldar til þess að geta haft svigrúm til þess að lifa sjálfbært í landinu varðandi orkumálin. Þetta er stutt útreikningi á þeirri orku sem flutt er til landsins í formi olíuafurða sem, ef við færum að framleiða vetni í landinu og nota á vélar líkt og verið hefur, kallar á 19 þúsund gígavattstundir eða 19 teravattstundir á ári í framleiðslu. Það væri að vísu minna ef breytt væri um tækni og um væri að ræða efnarafala. Ég bið menn að hafa í huga að þetta er hluti af því sem skapar minn hugarheim sé litið til þessara mála.

Ég held, virðulegur forseti, að ferðamálafrömuðir í landinu og þeir sem eiga að líta til með þeirri atvinnugrein ættu að íhuga hvort þeir séu í gagnrýni sinni á fyrirliggjandi skipulagstillögu að taka í réttan spotta. Ég held að þeir sem horfa til útivistarhagsmuna í landinu ættu að skoða sinn hug, hvort sem það eru talsmenn ferðafélaga eða annarra ágætra áhugasamtaka sem hafa að mörgu leyti rutt leiðina fyrir nýja nýtingu og nýja sýn til hálendissvæða Íslands. Hið sama gildir um þá sem ala með sér drauma um það og telja að við séum þarna með slík svæði að það beri að taka frá, jafnvel í heild sinni eins og nefnt er hér í minni tillögu, að verulegum hluta með stofnun þjóðgarða á þessu svæði, til þess að vernda það um alla framtíð, landsmönnum og þeim sem okkur sækja heim til afnota og yndisauka.

Auðvitað hafa komið fram fjölmargar athugasemdir við þessa tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins. Vafalaust eru margar þeirra efnislega vel rökstuddar út frá mismunandi sjónarmiðum. Þær fá sína afgreiðslu og það er verið að vinna úr því máli. En ég segi: Allir þeir sem vilja hugsa til þessa svæðis fyrst og fremst út frá verndarsjónarmiði og átta sig á gildi þess og hagsmunum, áður en lengra er haldið með framkvæmdir, ættu að horfa á þetta vinnuferli með velvilja og styðja við að það verði leitt til lykta og sú vinna sem hefur verið unnin í skjóli ákvarðana Alþingis á undanförnum fimm árum komist í höfn. Hún er ekki endanleg. Skipulagsvinna er aldrei endanleg í þeim skilningi. Allt skipulag kallar á endurskoðun í tímans rás, þetta sem annað. En þetta er grunnur og við skulum leggja hann.

Ég harma það, virðulegur forseti, að hér skuli án mikils rökstuðnings reynt að setja það í hættu að þessum málum verði komið í sæmilegan farveg af hálfu Alþingis. Þar á meðal er fólk sem vill sjá verndina í fyrirrúmi, náttúruvernd á miðhálendi Íslands, og þá er ég kannski að vísa til þingflokks Kvennalistans, að þeir hinir sömu skuli vilja ýta þessu í óvissa framtíð þar sem við sitjum áfram uppi með það ástand sem fram undir þetta hefur ríkt, að menn nái ekki tökum á þróun framkvæmda og umgengni við óbyggðir í landinu.

Ég gæti sagt, virðulegur forseti, býsna margt um þær útleggingar sem fram komu, t.d. í máli hv. 13. þm. Reykv., í gær. Ég ætla ekki að taka langan tíma til þess. Þar var, virðulegur forseti, m.a. vitnað til skipulagsstjóra ríkisins. Skipulagsstjóri ríkisins var leiddur fram sem eitthvert mikið gagnrýnisvitni varðandi svæðisskipulag miðhálendisins. Það var satt að segja ómerkilegt, virðulegur forseti, hvernig þar var haldið á máli og upplestrinum hætt í miðjum klíðum úr umsögn skipulagsstjóra ríkisins. Ég bæti ekki mikið úr því hér nema ég taki einhvern tíma fyrir þingið. Ég vek hins vegar athygli á því að það er ekki smekklegt að flytja hér mál skipulagsstjóra ríkisins, eða skipulagsstjóra eins og það heitir líklega lögum samkvæmt, þar sem hann rekur hugmyndir sínar um það hvernig æskilegt hefði verið að menn hefðu staðið að málinu. Hann lítur til fortíðar og það er sett fram sem rökstuðningur fyrir sjónarmiðum þingflokks jafnaðarmanna, sem stefnir greinilega að því að setja þetta mál í uppnám, inn í óvissa framtíð þar sem spurningin er hvernig menn nái landi. Því svara þeir þingmenn ekki sem hér halda uppi gagnrýninni. Svo ég vitni til skipulagsstjóra þar sem hv. 13. þm. Reykv. endaði í sinni ræðu í gær, með leyfi forseta:

,,Svona hefði e.t.v. átt að gera þetta en svona var þetta ekki gert vegna þess að svona gerast hlutirnir ekki. Ég er ekki þar með að segja að þetta þurfi ekki að gera. Það sem ég er að segja er að ef bíða á með gerð tillögu að skipulagi miðhálendisins þar til öllu hefur verið komið á hreint er hætt við að erfiðara hefði verið að vinda ofan af því sem búið væri að gera í mannvirkjagerð. Því var ráðist í gerð svæðisskipulagsins. Samvinnunefndin bauð ráðgjafarvinnuna út með aðstoð Ríkiskaupa og var í kjölfar þess samið við Landmótun ehf., Gísla Gíslason, Yngva Þór Loftsson og Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekta. Eftirfarandi meginmarkmið voru m.a. höfð að leiðarljósi:

Heildarstefna verði mörkuð í leyfisveitingum fyrir mannvirkjagerð á hálendinu og áhrif hennar á umhverfið jafnan metin.

Landslag og ásýnd svæðisins verði varðveitt sem best, þar með talið gróður og lífríki, náttúru- og menningarminjar.

Vegakerfið verði skilgreint og lagfært og reynt að koma í veg fyrir akstur utan vega.

Sýnd verði virkjunarsvæði og land ætlað fyrir uppistöðulón og línulagnir framtíðarinnar.

Ferðamál á hálendinu verði skilgreind, hálendismiðstöðvum og þyrpingum fjallaskála valin svæði og aðstaða ferðamanna bætt.

Skipulagi verði komið á sorp- og frárennslismál, náttúruverndarsvæði verði skilgreind og landgræðslusvæði sýnd.``

[14:30]

Og síðan, virðulegur forseti, er því lýst hvernig svæðisskipulagsvinnan hefur farið fram. Ég tel að það sé ekki sanngjarnt að leiða skipulagsstjóra fram sem einhvern stóran gagnrýnanda á þá vinnu sem unnin hefur verið. Ég hef hlýtt á mál hans þar sem hann hefur mátt sitja undir útúrsnúningum af því tagi sem voru framreiddir í þinginu í gær, vissulega með réttri tilvitnun í orð hans. En ég hef hlýtt á hann ráðstefnu eftir ráðstefnu þar sem hann hefur verið að botna málið og færa fram sín sjónarmið í sambandi við þessi efni.

Virðulegur forseti. Ég tel að ef hér verður hægt að ganga frá lögfestingu á frv. sem dreift var í þinginu í gær um breytingu á skipulags- og byggingarlögum þá væru menn búnir að treysta málið frá því sem það hefur legið fyrir að óbreyttum skipulagslögum. Ég ætla að vona að menn taki það til athugunar að ganga frá þessari löggjöf núna fyrir þinglokin því að ég held að það væri enginn greiði fyrir stjórnarflokkana að búa við óvissu að því leyti, með þá reimleika sem þegar hefur gætt þar innan veggja hjá ríkisstjórnarflokkunum. (ÖS: Hverjir eru draugarnir?) Ég efast um það, virðulegur forseti, að það sé ávinningur fyrir nokkurn að búa við þá óvissu. Og um leið og ég tek undir meginefni þessa frv. sem hæstv. umhvrh. lagði hér fyrir í þinginu og heiti því stuðningi þá hvet ég mjög til þess að menn gangi frá þessu máli núna áður en sól fer í sólstöðustað á þessu vori.

Ég tala um reimleika, virðulegur forseti. Ég hef sagt nokkur miður hlý orð til hv. þm. jafnaðarmanna. Ég hef gert það vegna þess að ég vil ekki liggja á því sem er mín hugsun og mitt mat á þeirra framgöngu hér. Mér finnst framganga þeirra ekki boðleg. Þingmenn jafnaðarmanna, margir hinir sömu og voru meginábyrgðarmenn í sambandi við undirstöður þeirrar skipulagsvinnu sem nú liggur fyrir í tillöguformi, geta ekki að mínu mati talað í þessu máli eins og þeir gera. Til þess hafa þeir lélegan bakgrunn, lélega undirstöðu.

Ráðherra Alþfl., umhvrh., flutti sem stjfrv. inn í þingið það mál sem lagði grunninn að skipulagsvinnunni og ég vitnaði til í gær í þinginu. Hann lagði grunninn að því. Og ekki aðeins svæðisskipulagsvinnu heldur vísaði hann málinu í þann farveg, virðulegur forseti, með sínum orðum í skriflegri greinargerð og í þingræðu þegar hann mælti fyrir málinu. Þá ræðu hef ég hér og gæti vitnað til hennar. (ÖS: Vitnaðu til ræðunnar.) Ég gæti vitnað til hennar þar sem ráðherrann lætur að því liggja að vel komi til greina að færa mörk sveitarfélaga inn til landsins og loka þar með uppskiptingu landsins milli sveitarfélaga.

Virðulegur forseti. Það er hvatnig um það að vitna til ræðunnar. Ég skal fúslega við því verða að til ræðunnar sé vitnað í von um að ég finni hana hér í mínum gögnum. Frv. talar auðvitað sínu máli. Ég vitnaði til þess í gær og ætla ekki að endurtaka það. Það er allt skýrt og því var fylgt eftir þegar Eiður Guðnason umhverfisráðherra mælti síðan fyrir málinu --- þetta mun hafa verið 5. apríl ef ég les rétt í tölurnar --- með svofelldum orðum, með leyfi forseta:

,,Til þess að gera þessa leið mögulega [þ.e. svæðisskipulagið] þarf að breyta 3. gr. núgildandi skipulagslaga þannig að heimilt sé að í samvinnunefnd um svæðisskipulag sitji fulltrúar héraðsnefnda í stað sveitarstjórna og er það lagt til í frumvarpi þessu.

Verði þetta frv. að lögum mun það verða eitt af fyrstu verkum samvinnunefndar að skilgreina mörk miðhálendisins á þeim forsendum að þau miðist í aðalatriðum við línu sem dregin verður milli heimalanda og afrétta. Þá þarf nefndin einnig að skýra að hvaða leyti svæðisskipulag miðhálendisins sé frábrugðið hefðbundnu svæðisskipulagi sem nær til alls lands þeirra sveitarfélaga sem að því standa. Svæðisskipulag miðhálendisins mundi aðeins ná til þess svæðis sem er ofar byggð, þ.e. ofan heimalanda. Enn fremur kæmi vel til greina að nefndin gerði tillögur um mörk sveitarfélaga á miðhálendinu í þeim tilvikum þar sem mörk eru á einhvern hátt óljós.``

Og síðar í framsöguræðu ráðherra Alþfl. segir einnig varðandi bygginarmálefni, með leyfi forseta :

,,Í þessu frv. er einungis fengist við skipulagsþátt vandans en eftir er að leita leiða til að styrkja byggingareftirlit á hálendinu. Í gildandi byggingarlögum er heimildarákvæði um svæðisbyggingarnefndir sem einungis er nýtt mjög afmarkað.

Þá kemur auðvitað til greina til að styrkja þetta eftirlit að sveitarfélög myndi svæðisbyggingarnefndir á þessu landsvæði. En fyrsta skrefið til að koma þessum málum í gott horf er að hefja vinnu að skipulagsgerðinni og til þess er þetta frv. flutt.``

Virðulegur forseti. Ég mælti gagnrýnisorð í þinginu við þáv. umhvrh. vegna þeirrar kúvendingar sem hann stóð fyrir í þessu máli frá því frv. sem hann hafði sýnt þá skömmu áður og sem rétt er að vitna hér til, a.m.k. þannig að menn hafi þingskjalið sem er 449. mál á 115. löggjarþingi 1991--92, þskj. 707. Það var mál sem var upphaflega lagt fram af ráðherranum. Það fjallaði hins vegar ekki um það að skera úr um stjórnsýslumörk. Það var frv. um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands. Ráðherrann fékk þetta mál ekki afgreitt í þeirri ríkisstjórn sem hann sat ásamt hv. núv. 13. þm. Reykv., þá félmrh., og boðaði til ráðstefnu sveitarstjórnarmanna, mig minnir 19. nóv. 1992, til að ræða málið. Að því búnu bar hann fram það frv. sem ég var að vitna til, sem er 455. mál á 116. löggjafarþingi, þar sem málið var sett í þann farveg sem það var í þangað til það var fellt inn í ný skipulags- og byggingarlög sem samþykkt voru samhljóða hér í þessu húsi, í þessu herbergi, á liðnu vori.

Menn geta auðvitað sagt eins og hv. 12. þm. Reykn. sagði áðan: ,,Ég bara gerði mér ekki ljóst þegar ég flutti þetta mál inn í þingsali, sem hluti af umhvn. þingsins, að þetta væri innifalið.``

Í mínum huga var aldrei neinn vafi á samhengi málsins. Ég hafði undirgengist hér það undanfarin á að leita færri leiða í sambandi við það að koma einhverri reiðu á óbyggðamálin, styðja að þeirri skipulagsvinnu sem unnin hefur verið, og tek ekki þátt í því, virðulegur forseti, að skjóta mér undan þeirri ábyrgð að hafa verið þátttakandi í því þó að þar hafi ekki verið fylgt hugmyndum mínum í vissum greinum og að ýmsu leyti. En ég hef metið efni málsins það mikilvægt að það yrði að leita leiða til þess að koma þarna á reiðu og opna leiðir sem geta leitt til sæmilegrar niðurstöðu. Og af því hef ég ekki slæma samvisku.

Ég er heldur ekki að mæla hér í ljósi þessarar fortíðar sem ég er að vitna til. Sem ég stend hér þá hef ég ekki slæma samvisku af því að ganga frá málinu í þeim farvegi sem hér er verið að marka, að teknu tilliti til þess frv. sem hæstv. umhvrh. lagði inn í þingið í gær.

Mér er fyllilega ljóst og ég er sannfærður um að það skipulag sem vonandi verður staðreynd fyrir lok þessa kjörtímabils, innan árs, og ég vona sannarlega að hæstv. umhvrh. beri gæfu til að ganga frá þó að ég sé auðvitað í óvissu sem aðrir um einstaka þætti sem eftir er að vinna úr vegna fram kominna athugasemda, leiðir til annarrar og betri niðurstöðu en verið hefur, heldur en það ástand sem hefur ríkt, og setur málin hvað framtíðina varðar og möguleika til úrvinnslu mála miðað við sjónarmið framtíðar í farveg þar sem hægt verður að taka skipulega á málum á ákveðnum lagagrunni, með ákveðinn lagagrunn sem bakhjarl.

Mér er alveg ljóst eins og ég hef þegar rakið, virðulegur forseti, að ýmsir verða óánægðir, þeir geta orðið margir. En liður í skipulagi og eðli skipulags er að ekki verða allar óskir uppfylltar. Þess vegna erum við að gera skipulag. Vegna þess að landið okkar og umhverfi okkar þolir ekki óreiðu, þolir ekki að hlutirnir þróist tilviljanakennt og að allir telji sig hafa réttinn. Síst af öllu þjónar það verndarhagsmunum og hugmyndum þeirra sem vilja fara varlega í umgengni við landið og ekki vinna þar óbætanlegt tjón á náttúru Íslands.

Ég er ansi hræddur um að ef þetta mál fer á þann veg sem hætta er á ef við ekki getum gengið tryggilega frá því hér og nú, þá geti eftirleikurinn reynst erfiður og útkoman þar geti orðið allt önnur en þeir vafalaust ætla sem --- þar á meðal hv. þingmenn jafnaðarmanna --- eru að mæla hér fyrir, af því ég ætla þeim ekki heldur neitt illt í sambandi við sínar hugmyndir eða málafylgju. Ég ætla þeim ekkert illt með því. Ég tel að þeir lesi rangt í málið og setji það í mikla óvissu með sínum hugmyndum hér í umræðunni og þeim tillögum sem fyrir liggja.

Virðulegur forseti. Hvað á fólkið úti í samfélaginu að halda um stöðu þessara mála á Alþingi Íslendinga? Hvað á fólkið að halda þegar hingað koma fulltrúar úr ríkisstjórnarliðinu og vega að þessu máli eins og verið er að gera? Hvernig má það vera að ábyrgðaraðilar í stjórnarliðinu og í þingliði hæstv. umhvrh. og hæstv. félmrh. skuli koma að þessu máli eins og fyrir liggur? Ég að vísu virði það ætíð að menn fylgi sannfæringu sinni en mér er bara ekki ljóst hver er raunveruleg sannfæring hv. 11. þm. Reykv. í þessu máli. Ég hef ekki fundið þar neina festu fyrir. Ég átta mig ekki á á hvaða forsendum þar er talað. Ef ég reyni að átta mig á málafylgjunni hjá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni, formanni umhvn., sé ég ekki annað en að sá farvegur sem hér er verið að leggja til og marka uppfylli meginatriði þeirra óska sem þingmaðurinn hefur verið að mæla fyrir í blöðum og fjölmiðlum á undanförnum vikum og hef ég þar útskriftir af hans eigin orðum sem hægt væri að vitna til, virðulegur forseti.

[14:45]

En svo kemur hv. þm. inn í umræðuna í gær og vill endurreisa eða setja á loft kröfuna um að miðhálendið falli ekki undir stjórnsýslu sveitarfélaga sem ég hef ekki heyrt þingmanninn bera brigður á sem formann nefndar sem leiddi til lykta frv. um skipulagslöggjöf fyrir tæpu ári síðan.

Mér finnst þetta því óábyrgt, ætti þó kannski síst af öllu að harma að það sé einhver darraðardans á ríkisstjórnarheimilinu. Mér finnst málið hins vegar miklu stærra en svo að hægt sé að skoða það út frá stjórn og stjórnarandstöðu. Það er það sem ræður mínum orðum í sambandi við þetta mál og minni afstöðu.

Ég bið þá fjölmörgu Íslendinga sem bera málefni miðhálendisins fyrir brjósti út frá sjónarmiði náttúruverndar og möguleika til útivistar að láta ekki óskylda hagsmuni eða óskýra málafylgju rugla sig í ríminu. Það gæti orðið til þess að mönnum væri beitt fyrir þann vagn sem síst skyldi, sem er að hella eldsneyti á vélina eftir föngum.

Virðulegur forseti. Ég lýsi ánægju minni með að þetta mál er á leið til afgreiðslu. Ég hvet til þess að gengið verði frá málinu til fullnustu með því að lögfesta hér breytingu á skipulags- og byggingarlögum eins og tillaga ríkisstjórnarinnar liggur fyrir um á þessu þingi. Ég held að það verði engum til þægðar en setji málið í nokkra tvísýnu, svo ekki sé fastar að orði kveðið, ef við ætlum að fresta þeirri lagabreytingu til næsta þings. Og ég er reiðubúinn til þess að sitja eitthvað lengur á þinginu ef þess gerist þörf til þess að leiða það mál til lykta. Hér er eitt af okkar stóru málum á ferðinni. Við þurfum að vanda frágang þess. Við höfum þegar unnið mikið í málinu. Fyrir liggja tillögur að svæðisskipulagi miðhálendisins í fyrsta sinn. Við getum gengið frá traustum grunni hvernig eigi að standa að framhaldsvinnu við það skipulag eftir að það hefur verið staðfest, bæði í tengslum við staðfestingu þess og eftir að það hefur verið staðfest, því auðvitað kemur til endurskoðunar innan einhvers tíma á því verki. Við eigum að sameinast um að taka efnislega á þessu máli og reyna að stilla til sem bests friðar í landinu í kringum þetta, með fullri virðingu fyrir þeim mörgu sjónarmiðum sem eðlilega tala inn í málið og sem málið varðar. Þetta er mál allra Íslendinga. Þetta varðar marga hagsmuni og stóra hagsmuni. En aðalatriðið er að beita sjónarmiðum og nota sjónarmið verndar við mat á málinu, ganga hægt fram í sambandi við allt sem lýtur að mannvirkjagerð á þessu svæði, taka sem stærstan hluta þess til varanlegrar verndar og nota fyrir Íslendinga sem og aðra sem dvelja í okkar landi.