Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 15:10:07 (5919)

1998-04-29 15:10:07# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[15:10]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir að það er kannski ekki til hins verra það frv. sem hæstv. umhvrh. hefur borið inn í þingið og kynnt og virðist kannski vera hálfumkomulaust ef marka má umræður í þinginu. En það sem ég fæ ekki skilið er einfaldlega hvaða innlegg þetta er í málið. Það er það sem ég fæ ekki skilið því að nefndinni er í sjálfu sér ekki ætlað annað hlutverk en það að veita umsögn og það er kannski eitthvað sem við eigum eftir að ræða síðar í dag hvernig andófsöflin í Framsfl. voru beygð með þessari undarlegu tillögu. Það er eitthvað sem við eigum eftir að ræða síðar.

En ég vildi fá það fram af því að hv. þm. er vel að sér í þessum málum og kannski hefur mér yfirsést eitthvað í þessu að hann upplýsti mig og þá kannski þingheim um það líka hvar þetta frv. styrkir svæðisskipulagið. Hvar kemur það inn? Jú, það hefur umsagnarrétt og kannski koma fleiri að málinu en að öðru leyti finnst mér þetta vera mjög undarleg lending á einhverju meintu deilumáli í Framsfl. Kannski um margt merkilegt að það þurfi ekki annað en skipa nefnd í málið til að leysa úr ágreiningi.

En ég treysti hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni ágætlega til þess að skýra það út fyrir mér og þingheimi hvar það er sem mér yfirsést í þessu máli og hvar það er sem þetta frv. styrkir svæðisskipulagið eins og um er talað.