Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 15:11:54 (5920)

1998-04-29 15:11:54# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[15:11]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er með tvennum eða þrennum hætti sem þetta frv. tengist málinu efnislega á býsna skýrum forsendum að mér sýnist. Það er alveg ljóst að það er komið fram sem tilraun til sátta. Ég held að engum blandist hugur um það. Það er sett fram til að tryggja að inn komi fulltrúar sem séu eitthvað nær þéttbýlinu, höfuðborgarsvæðinu, Vestfjörðum og Reykjanesi en þeir fulltrúar sem eru tilnefndir af sveitarfélögum. Ég hef sjálfur mælt með því að þetta yrði gert í þessa veru.

Að því er varðar núverandi skipulagstillögu er alveg ljóst samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í 2. gr. þessa frv. að þar er það eingöngu umsagnarréttur um tillöguna sem felst í því. En að loknum sveitarstjórnarkosningum ber að skipa svæðisskipulagsnefnd að nýju og þá verða þessir hinir sömu, sex til viðbótar við tólf, orðnir fullveðja þátttakendur í nefndinni sem ber ábyrgð á skoðun málsins síðar þegar það kæmi til endurskoðunar eða til að fjalla um málið þannig að það er náttúrlega skýr breyting. (LB: Sem umsagnaraðili?) Nei, ekki sem umsagnaraðilar. Umhvrh. skipar samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum les ég í tillögunni. (LB: ... farðu yfir verkefnið.) Verkefnið er að sjálfsögðu að fjalla um þau mál sem kynnu að koma upp til svæðisskipulagsmeðferðar í framtíðinni þannig að þetta er finnst mér efnislega skýrt og alveg nauðsynlegt að það sé sem flestum ljóst.