Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 16:11:21 (5927)

1998-04-29 16:11:21# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[16:11]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mikið mark á hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og virði þekkingu hans á umhverfismálum. Ég virði þekkingu hans á hálendinu, ég virði þekkingu hans á íslensku máli og umfjöllun hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar á þingi, almennt hvað sem hann fjallar um. En því miður hefur hv. þm. Kristján Pálsson misskilið það hvers vegna ég las upp úr erindi, Um daginn og veginn, til að koma því á þingskjöl. Það er úr Víðsjá, Rás 1, mánudaginn 27. apríl og var flutt af Steinunni Sigurðardóttur rithöfundi.

Ég flyt þetta mál til að sýna viðhorf aðila úti í þjóðfélaginu sem er endurómur þeirra 90 sem skora á Alþingi Íslendinga að fresta afgreiðslu þessa máls eftir því sem ég best veit. Þess vegna flutti ég þetta mál hér, til þess að sýna fram á hvernig hugsunin væri hjá þeim sem farnir eru að velta þessum málum fyrir sér. Ég er ekki að segja að þetta séu mín rök.

Ég kaflaskipti ræðu minni þannig að ég fjallaði fyrst um frv. til sveitarstjórnarlaga, sem er í 105 greinum, hér er aðeins verið að ræða hluta einnar greinar.

Síðan gerði ég grein fyrir því að ég mundi fjalla um þetta mál, síðan mín viðhorf almennt. Það gerði ég og í viðhorfum mínum kom ég með þau rök sem ég tel haldbær fyrir því að fresta eigi málinu.