Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 16:19:32 (5932)

1998-04-29 16:19:32# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. meiri hluta MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[16:19]

Frsm. meiri hluta félmn. (Magnús Stefánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Að sjálfsögðu er ég sammála honum í því að hér hefur ekki farið fram málefnaleg og efnisleg umfjöllun um frv. sem slíkt. Ég tek alveg undir það með honum og sakna þess að sjálfsögðu að ekki skuli meiri tími í þessari umræðu fara í það.

En aðeins varðandi lágmarksíbúafjöldann hafa komið fram fjölmörg sjónarmið um að það ætti að hafa þá íbúatölu hærri. En ég hygg að þau sjónarmið hafi ráðið ferð að það stendur yfir töluvert mikið af sameiningum sveitarfélaga um þessar mundir, eins og við vitum, og ekki hefur verið talin ástæða til að hreyfa við þessu ákvæði, kannski fyrst og fremst vegna þess að sameining sveitarfélaga á sér stað nú mjög víða. Hins vegar er það rétt, eins og hv. þm. bendir sjálfur á og kom fram í umsögnum hjá félmn., að fjölmargir telja að þessi tala ætti að vera hærri en þetta er niðurstaðan úr þeirri umfjöllun sem átti sér stað í nefndinni.