Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:20:34 (5936)

1998-04-29 21:20:34# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:20]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur haldið mikla ræðu. Margt gott er um mál hans að segja en undir ýmislegt annað get ég ekki tekið og mér finnst hann drótta mjög að okkur landsbyggðarmönnum, að við höfum illa farið að ráði okkar um miðhálendið og ég er ekki sáttur við þau ummæli. Ég hygg að landsbyggðarmenn hafi elskað miðhálendið, þar hefur hugur þeirra verið og þar hafa þeir gert marga mjög góða hluti bæði í lagningu vegslóða, byggingu gangnamannakofa og fleira og leyft þéttbýlisbúum að eiga þar aðgang að, friðland og skýli. Þeir hafa komið upp þjónustu á miðhálendinu o.s.frv. Sveitarfélögin hafa gengið þar í broddi fylkingar og engum treysti ég betur en því stjórnstigi til þess að vaka yfir miðhálendinu.

Ég tel hins vegar, hæstv. forseti, mikilvægt að ná sátt um þetta mál og mér finnst margar þær ræður sem hér hafa verið haldnar vera fremur til þess að róta upp pólitísku moldviðri en að menn séu þar að tala einhvern sannleika.

Hv. þm. fór með rangt mál þegar hann minntist á mig sem óðalsbónda á Brúnastöðum. Sá misskilningur hefur stundum verið uppi að ég eigi 100 kýr og 500 ær. Svo er ekki. Ég fékk ekki að búa, hefur líklega ekki verið treyst til þess af föður mínum og konan stóð svo gegn því einnig þannig að ég á heima á Selfossi. En ég tek undir það með hv. þm. að í því frv. sem nú hefur verið sýnt og lagt fram er slys ef það á að útiloka að hrepparnir sem eiga aðild að afréttum í dag fái að koma þar nálægt. En því hafa þeir heitið, hæstv. umhvrh. og félmrh., að þessu verði breytt og þar koma héraðsnefndir eða sveitarstjórnir þannig að ég er tiltölulega sáttur við þá breytingu.

Ég legg áherslu á það, hæstv. forseti, að lokum að þingið þarf að ná sátt um þetta mál.