Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:28:54 (5940)

1998-04-29 21:28:54# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:28]

Frsm. minni hluta félmn. (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við þingmenn notum orðið að elska ekki mjög mikið í ræðum okkar. Það var gert nú og að gefnu tilefni ætla ég að leyfa mér að halda því fram að landsmenn allir elski landið sitt. Mér finnst ástæða til að nefna það út af þessu andsvari.

Það var margt athyglisvert, virðulegi forseti, í ræðu hv. þm. sem var að ljúka ræðu sinni. Eitt af því sem hann nefndi var hver vildi vekja úlfúð milli dreifbýlis og þéttbýlis. Það vill enginn og við ættum að hafa það að leiðarljósi að þó að við höfum ólíkar skoðanir á stjórnsýslunni og skipulagi á miðhálendinu og ólíka skoðun á því hvaða verkefni skuli vera hjá sveitarfélögunum erum við ekki að vekja úlfúð á milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Þingmaðurinn nefndi deiliskipulagsréttinn og ég gat ekki skilið hann öðruvísi en svo að hann hefði talið að það hefði verið um það rætt að deiliskipulagið færi frá sveitarfélögunum í kringum miðhálendið. Ef ég hef skilið hann rétt hlýt ég að árétta að aðalskipulagið er hjá sveitarfélögunum. Deiliskipulagið er hjá sveitarfélögunum og byggingarréttur og byggingarleyfi eru hjá sveitarfélögunum og meira að segja eftir að sú tillaga nær fram að ganga, ef það verður sem flutt er í sérstöku frv., verða þessir þættir áfram hjá sveitarfélögunum. Þess vegna skil ég ekki hvernig á að vera unnt að flytja deiliskipulagið frá þeim.

Í þriðja lagi, virðulegi forseti, kom sú athugasemd frá Reykjavíkurborg til félmn. að mjög mikilvægt væri að miðhálendið væri ein skipulagsleg heild þó stjórnsýsluleg ábyrgð skiptist á milli sveitarfélaganna. Skoðun mín er sú að engin djúpsálarfræði sé í því af hverju öll sveitarfélögin styðja sveitarfélög kringum miðhálendið varðandi skipulag og stjórnsýslu. Ég held að það sé einfaldlega þannig að öll sveitarfélögin vilji að þau fái stuðning til verkefnisins.

Virðulegi forseti. Þessi orðaskipti um pósthús á Heklu tek ég bara eins og gríni.