Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:36:08 (5944)

1998-04-29 21:36:08# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:36]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa þingheims á hendur forsetadæminu að það tryggi að þingmenn njóti jafnræðis í umræðunni. Það hefur komið í ljós í þeim andsvörum sem voru háð áðan að svo er ekki. Hér liggur fyrir frv. til laga um sveitarstjórnarmál. En jafnframt hefur hæstv. umhvrh. fleygt inn í umræðuna frv. sem fæst ekki rætt. Þetta frv. er grundvöllur sáttargerðar, sem a.m.k. hluti stjórnarandstöðunnar á aðild að einmitt vegna þessa frv.

Nú kemur hins vegar fram í umræðunni hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að hann hefur upplýsingar um að hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. hyggist breyta þessum frv. í atriði sem skiptir verulega miklu fyrir umræðuna. Það kemur fram að í stað þess að sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu eigi að skipa tólf fulltrúa þá eigi að breyta því yfir í héraðsnefndir.

Herra forseti. Ég tel að þetta sé grundvallarbreyting á frv. Ég spyr: Er það virkilega svo að í skúmaskotum Framsfl. sé verið að gera einhverja samninga, einhver hrossakaup um þessi mál, til þess að bæla niður þá ólgu sem brýst fram hvað eftir annað í þingsölum? Er verið að gera einhvers konar baktjaldakaup sem við aðrir þingmenn fáum ekki að vita um?

Herra forseti. Það er algjörlega og með öllu óþolandi að hæstv. félmrh. reyni að skjóta sér á bak við einhverja svona samninga til þess að reyna að lægja þær öldur sem þetta fáránlega frv. hæstv. umhvrh. hefur vakið í stjórnarliðinu. Ég krefst þess, herra forseti, að skorið verði úr því fyrr en síðar hvort þetta frv. komi á dagskrá eða ekki. Ef svarið er nei þá er lágmark að hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. greini öllum þingmönnum frá þeim breytingum sem þeir hafa verið að semja um á bak við tjöldin við menn sína til þess að fá frið í eigin flokkum.