Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:38:09 (5945)

1998-04-29 21:38:09# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:38]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég hlýt að fara fram á að þessum fundi verði frestað. Það gengur ekki að halda áfram með þeim hætti sem menn gera hér, að aftur og aftur eru að koma fram alveg nýjar upplýsingar um stöðu mála eins og kom fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar. Það sýnir ótrúlega lítilsvirðingu stjórnarliðsins gagnvart þinghaldinu og stjórnarandstöðunni að menn skuli haga málum eins og hér er gert.

Ég hlýt þess vegna að ítreka óskir mínar frá því í dag og frá því í gær um það að téð frv. verði tekið á dagskrá og tekið til umræðu og menn skammist til þess að koma fram með málið eins og það liggur fyrir. Á sama tíma og menn neita að taka það á dagskrá upplýsir hv. þm. Guðni Ágústsson, sem er einn af forsetum þingsins, að verið sé að versla með breytingar á málinu inni í skúmaskotum Framsfl. Það er óhjákvæmilegt að það verði upplýst tafarlaust: Er ætlunin að taka frv. á dagskrá eða ekki?

Ég fer fram á það við hæstv. forseta að núna verði gert hlé á fundinum til þess að fá um það upplýsingar hvenær eða hvort menn hugsa sér að ræða það mál að þetta mál verði tekið sérstaklega á dagskrá. Það gengur ekki, herra forseti, að hafa í frammi þennan blekkingaleik gagnvart þinginu, sem auk þess einstakir talsmenn Framsfl. hafa í flimtingum í ræðustól aftur og aftur eins og hv. 2. þm. Suðurl. hér áðan.