Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:43:16 (5948)

1998-04-29 21:43:16# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:43]

Ágúst Einarsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er engin þreyta yfir þingmönnum í sambandi við þetta mál. Þetta snýst um grundvallaratriði. Þetta snýst um virðingu Alþingis. Við erum að ræða frv. til sveitarstjórnarlaga og það hefur komið fram að stuðningsmenn þess máls binda stuðning sinn við frv. sem er ekki á dagskrá og ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur neitað að setja á dagskrá og ræða. Síðan er upplýst í umræðunni að því frv. verði breytt efnislega einhvern tíma síðar.

Herra forseti. Þetta er ekki sæmandi virðingu Alþingis. Ég tek undir þau ummæli frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Svavari Gestssyni að það á að fresta umræðunni og menn eiga að setjast yfir málið. Því að þetta snýst ekki um efnisatriðin í frv. sem er ekki til umræðu, heldur að þetta frv. komi á dagskrá og þessi mál verði rædd þá í samhengi. Ef til vill vilja menn fresta öllum málunum og taka þau aftur upp í haust, eins og menn gerðu með gagnagrunnsmálið. Það verður að fara skipulega yfir það. En það er ekki sæmandi virðingu Alþingis að ræða málið út frá þessum forsendum, að ræða sveitarstjórnarmálið og skilyrða það stuðningi við frv. sem er ekki einu sinni á dagskrá. Þá verður það mál að koma á dagskrá, málin að ræðast saman, við skiptast á skoðunum um þau, vísa því máli til nefndar, sem á eftir að fara til nefndar, og ræða þetta í samhengi. Skiptast á skoðunum og fara með málið í ágreining og atkvæðagreiðslu. Það eru starfshættir Alþingis. En mér sem þingmanni er misboðið við þessa umræðu.