Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 21:45:43 (5950)

1998-04-29 21:45:43# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SvanJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[21:45]

Svanfríður Jónasdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég held að það sé algjörlega nauðsynlegt að taka frv. á dagskrá, einfaldlega vegna þess að ef málið er lesið og ef það er tekið bókstaflega er það svo að hér stendur að sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu eigi að tilnefna samtals tólf fulltrúa.

Sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu eru 42, hvorki fleiri né færri. Hvað með öll hin sveitarfélögin? Telja menn svo að réttlætinu sé fullnægt ef Reykjavík fær tvo fulltrúa, Reykjanes einn og Vestfirðir einn? Hvað með Akureyri? Hvað með önnur sveitarfélög sem liggja þar fyrir utan? Eiga þau enga fulltrúa að hafa?

Menn hafa spurt hér: Hvernig eiga þessi 42 sveitarfélög að skipa þessa tólf? Þá hafa menn sagt hér, bæði hv. þm. Jón Kristjánsson og sömuleiðis hæstv. ráðherra, að það eigi héraðsnefndir að gera. En hvaða stöðu hafa héraðsnefndir í því frv. til sveitarstjórnarlaga sem liggur fyrir? Hún er mjög veik. Hún er nánast engin. Nafnið kemur fyrir einu sinni í upptalningu. Er þetta sú stjórnsýsla sem menn vilja hafa hér?

Það er óhjákvæmilegt að þetta mál komi á dagskrá til þess að hægt verði að ræða það hvernig eða í hvaða búningi það mun a.m.k. koma þá til þingsins í haust. Best væri, herra forseti, að bæði málin væru rædd saman og þau væru síðan tekin og skoðuð betur í sumar og það væri samræmt hvernig menn vildu sjá þessa hluti vegna þess að eins og þetta er núna gengur það frv. sem umhvrh. leggur fram til breytinga á skipulags- og byggingarlögum ekki upp, það er a.m.k. óskiljanlegt miðað við það hvernig menn tala hér. Ef menn ætla að nýta héraðsnefndirnar til þess arna gengur það ekki upp gagnvart því frv. til sveitarstjórnarlaga sem hér liggur fyrir.

Það er því óhjákvæmilegt, herra forseti, að þetta mál, frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum, verði tekið á dagskrá, það verði skýrt nákvæmlega fyrir þingheimi hvað menn voru að hugsa þegar þeir sömdu þetta frv. og hvort það er rétt sem hér er hjalað að það eigi eftir að gera einhverjar breytingar á þessu frv., að það eigi alls ekki að líta út eins og það lítur út núna þegar það kemur inn í þingið í haust. Þetta gengur ekki upp, herra forseti, ekki eins og þetta liggur nú fyrir.