Frumvarp til skipulags- og byggingarlaga

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:26:59 (5957)

1998-04-29 22:26:59# 122. lþ. 114.94 fundur 330#B frumvarp til skipulags- og byggingarlaga#, SvG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:26]

Svavar Gestsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég þakka forseta fyrir þessa yfirlýsingu. Aðalatriðið í mínum huga er að það reyni á þingviljann í málinu og kannað hvort taka megi fyrir frv. til breytinga á skipulags- og byggingarlögum. Ég tel að heppilegra sé að úrslitin í þeim efnum ráðist samkvæmt þingsköpum fremur en að makkað verði um málið í skúmaskotum eins og lýst hefur verið hér ítrekað af ræðumönnum Framsfl. í kvöld.

Ég tel að vísu að frammistaða stjórnarflokkanna í þessu máli sé hrakleg, til skammar og að komið sé aftan að fólki með þeim vinnubrögðum en ég ætla ekki að ræða það frekar hér. Ég uni því að menn muni leita þessara afbrigða í fyrramálið en það þýðir ekki að stjórnarandstæðingum verði bannað að ræða um efni þessa frv. í kvöld og í nótt ef þörf krefur.