Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:37:58 (5959)

1998-04-29 22:37:58# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:37]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það má sjá það á þessum hv. þm. þegar hann talar af sannfæringu og hvenær hann gerir það ekki. Ég verð að segja það, herra forseti, að þegar hann ræddi um hvers vegna hann félli frá fyrirvara sínum við frv. þá geislaði það af hv. þm. að það var eitthvert aumasta yfirklór sem nokkru sinni hefur heyrst í þessari umræðu. Það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Hv. þm. talaði um að nauðsynlegt væri að Reykvíkingar, kjósendur hans, gætu haft áhrif á miðhálendið og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Hann talaði fjálglega um að margir kjósendur hans hefðu viðrað þessar áhyggjur sínar við hann. Hver er niðurstaðan sem veldur því að hv. þm. telur sig þess umkominn að bregðast trausti þessara kjósenda með því að falla frá þeim skoðunum sem hann hafði þegar hann setti fyrirvarann við það? Jú, af 16 fulltrúum fá Reykvíkingar tvo. (Gripið fram í: Af 18.) Af 18 fulltrúum fá íbúar í Reykjanesi og Reykjavík þrjá.

Herra forseti. Hvernig mundi þessum sjálfskipaða gæslumanni fjárhags skattborgaranna líða ef þeir sem færu með 67% af eignarhaldi á Íslandsbanka til að mynda færu einungis með 3/18 eða 1/6 af atkvæðavægi á aðalfundi bankans? Hann myndi auðvitað verða viti sínu fjær og ég held að kjósendur þessa hv. þm. hafi fullan rétt á að verða viti sínu fjær á því hvernig hann svíkur það sem hann sjálfur hefur sagt að hafi verið þau viðhorf sem lágu til grundvallar fyrirvara hans. Ég get út af fyrir sig ekki haft nein áhrif á skoðun þessa hv. þm. En drottinn minn dýri, þau rök sem hann sjálfur færði fyrir fyrirvara sínum við málið. Að halda því fram að þau falli við það eitt að þéttbýlið fái þrjá fulltrúa af 18, það er ótrúlegt að heyra þennan málflutning, herra forseti. Margt fleira í röksemdafærslu hv. þm. má fetta verulega fingur út í en ég ætla að leyfa mér að bíða með, annaðhvort til ræðu minnar síðar í nótt eða til seinna andsvars míns.