Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:40:11 (5960)

1998-04-29 22:40:11# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:40]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ágætt að hv. þm. geti séð hvenær ég tala af sannfæringu og hvenær ekki, geti lesið hug minn að því leyti. En í þessu máli hef ég fulla sannfæringu fyrir því sem ég sagði. Það er nefnilega munur á eignarhaldi og því að mega skipuleggja hlutina. Eftir því sem ég best veit liggur fyrir Alþingi frv. um þjóðlendur þar sem eignarhaldið er sett yfir á ríkið. Ég er reyndar ekkert voðalega hrifinn af því en ég sé bara ekki aðra lausn. En ég vil benda á að af þeim 18 mönnum sem skipa nefndina kemur einn frá félmrh., einn frá umhvrh. og svo koma 12 frá þeim hreppum eða sveitarfélögum sem eiga aðgang að miðhálendinu. Ég treysti því fólki sem heild, það er ekki spurning, til þess að skipuleggja svæði sitt nákvæmlega eins og það treystir Reykjavík til að skipuleggja svæði sem fellur innan Reykjavíkur. Ég ber ekki það vantraust til þessara sveitarstjórna almennt að þær muni ganga yfir hagsmuni þéttbýlisins. Það sem ég óttaðist var að einstaka sveitarfélag með jafnvel mjög fáum íbúum hefðu einhver önnur sjónarmið en ég treysti því að þegar svona margir aðilar koma að málinu muni þeir hafa þau sjónarmið að allir landsmenn muni fá aðgang að hálendinu, nákvæmlega eins og allir landsmenn hafa aðgang að bæjarsvæði Reykjavíkur.