Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:44:56 (5963)

1998-04-29 22:44:56# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:44]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal skrifaði undir álit meiri hlutans með þeim fyrirvara að hann teldi rangt að skipta skipulags- og byggingarmálum miðhálendisins upp á milli 42 sveitarfélaga. Réttara væri að miðhálendið væri ávallt skipulagt sem ein heild og að fulltrúar allra landsmanna taki þátt í ákvörðunum um það skipulag. Þetta er í meginatriðum fyrirvari hv. þm.

Hann féll áðan frá fyrirvaranum. Hefur það breyst sem hann gerði fyrirvara um? Nei, það hefur ekki breyst. Lagt hefur verið fram frv. sem kveður á um það að sett verði á laggirnar samvinnunefnd sem sé umsagnaraðili um tillögur fyrri nefndar. Það er beinlínis kveðið á um að fyrri nefnd eigi að skila áliti og að staðfesta eigi það skipulag að fenginni umsögn þessarar nefndar. Aðalskipulag og deiliskipulag er áfram í höndum hinna 42 sveitarfélaga. Ekki er verið að tala um að allt miðhálendið verði ein skipulagsleg heild eins og þingmaðurinn ræddi um. Það að Reykvíkingar, 110 þúsund, fái einn fulltrúa í 18 manna nefnd segir sig alveg sjálft að hann er ekki að gæta hagsmuna kjósenda sinna.

Herra forseti. Vitaskuld má hv. þingmaðurinn falla frá fyrirvara sínum en þá á hann að segja að hann hafi breytt um skoðun. Frv. umhvrh. svarar ekki til þeirra krafna sem hann gerði fyrirvara um. Málið er ekki flóknara en það. Ef svo hefði verið þá væri þetta allt saman eðlilegt. En það er ekki eðlilegur málflutningur að koma hér og skrifa undir meirihlutaálitið með mjög ströngum skilyrðum, nákvæmlega eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerði --- og reyndar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, og síðan kemur fram frv. sem uppfyllir ekki kröfur þeirra um fyrirvara. Það er augljóst eins og það frv. er sett upp að það mætir ekki fyrirvaranum. Þá eiga menn að hafa manndóm í sér til þess að viðurkenna að þeir hafi skipt um skoðun.