Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 22:51:06 (5966)

1998-04-29 22:51:06# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[22:51]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir ávallt leiðinlegt þegar menn tala niður til mín og segja mér að ég hafi ekki lesið frumvörp. Ég er búinn að lesa þetta frv. og ég tel mig meira að segja hafa skilið það. Þegar ég segi að þetta fullnægi þeim kröfum sem ég geri til lausnar málsins þá er það þannig að í frv. stendur að allt miðhálendið skuli svæðisskipulagt sem ein heild. Fyrsta krafan uppfyllt. Þetta verður ekki sundurlaust skipulag.

Í öðru lagi segir: ,,Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga ...`` Þar með er málið leyst. Ég tel mig nefnilega hafa lesið þetta alveg fullkomlega, herra forseti.

Fyrirvarinn sem ég var með var sá að þess skyldi gætt að miðhálendið væri ávallt skipulagt sem ein heild, og það er gert hér með, bæði svæðisskipulag og að þær hugmyndir í svæðisskipulaginu skuli færðar inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga. Og hvað það varðar að fulltrúar allra landsmanna taki þátt í þeirri ákvörðun er líka tryggt í þeim hugmyndum sem liggja hér til grundvallar.

Ég stend því við það að þetta fullnægi þeim kröfum sem ég gerði í fyrirvara mínum og þar með féll ég frá honum.