Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:05:13 (5970)

1998-04-29 23:05:13# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:05]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þetta afskaplega athyglisvert sjónarmið hjá þingmanni Reyknesinga. Hann segir: Þetta er allt í lagi eins og það er núna, þ.e. gamla samvinnunefndin sem er skipuð fulltrúum sveitarfélaganna sem liggja að þessu, 12 manna nefndin. Hann biðst eiginlega undan því að fulltrúar Reyknesinga eða Reykvíkinga fái aðild að skipulagsmálum eins og reyndar er gert með mjög veikum hætti í frv. umhvrh. Hann segist treysta nefndinni að taka tillit til afstöðu eða sjónarmiða sem koma fram hjá þéttbýlisbúum. Ég er algjörlega ósammála mati hv. þm. Ég tel grundvallaratriði að fulltrúar þéttbýlisins komi að þessu máli, ekki vegna þess að ég vantreysti litlu sveitarfélögunum að gera þetta heldur er það eðlilegt. Það er eðlilegur ferill að miðhálendið, þessar sameignir þjóðarinnar, séu skipulagðar í sameiningu. Besta leiðin er að gera það eins og við leggjum til að allt þetta svæði og þess vegna ef á suðvesturhorninu væri um sambærileg svæði að ræða, að þau lúti einni stjórnsýslulegri stjórn. Þetta yrði sérstakt stjórnsýsluumdæmi með öllu sem því fylgir. Það væri langhreinlegast vegna þess að þá kæmu landsmenn allir að skipulagningu þessara mála. En ég furða mig á afstöðu þingmannsins að leggja ekki meira upp úr því að kjósendur hans fái eðlilegan samráðsgrundvöll og eðlilega umræðuaðkomu varðandi skipulagsmál á miðhálendinu. Mér finnst þetta vera fráleit yfirlýsing og ekki í þágu þess fólks sem hann situr á þingi fyrir að mínu mati.