Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:09:18 (5972)

1998-04-29 23:09:18# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:09]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er orðið nokkuð áliðið kvölds og senn verður nóttin brostin á. Það kom fram í máli hv. þm. Guðna Ágústssonar fyrr í kvöld að menn væru farnir að gerast nokkuð þreyttir og það kann að gilda um nokkra þingmenn. (EKG: Komið kvöld.) Ég held því, eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson varpar inn í umræðuna að það sé orðið kvöldsett, að það sé kominn tími til að þingmenn fái einhverja yfirsýn yfir það hversu lengi hæstv. forseti hyggst halda umræðunni áfram. Það blasir við að fjöldi manna er á mælendaskrá og enn fleiri eiga eftir að koma á mælendaskrána og talsvert margir af þeim, er mér kunnugt um, sem hafa þegar talað munu telja knýjandi þörf eins og mál hafa skipast í kvöld og í dag á að ræða málið frekar því að það mál sem er undir er svo mikilvægt að það er brýnt að öll sjónarmið komi fram og málið sé brotið til mergjar og rætt út í hörgul. (EKG: Það hefur ekki verið gert enn þá.) Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson bendir á að að hans mati og þá væntanlega flokks hans hafi það ekki verið gert enn þá. Ég get svo sem tekið undir það en hvað sem því líður, herra forseti, finnst mér nauðsynlegt að menn velti því a.m.k. fyrir sér hvenær við eigum að láta nótt sem nemur. Enn hefur ekkert gengið af forsetastóli sem gefur neitt til kynna um það að hæstv. forseti telji að kominn sé tími til að láta þingheim vita hvað hann hyggst fyrir um framvindu þingsins. Hér hafa í kvöld komið fram mál sem hafa sett málið í enn frekara uppnám en áður. Það er ljóst að hingað hafa borist upplýsingar úr þingflokki Framsfl. sem benda til þess að verið sé að semja um mál á bak við tjöldin. Það frv. sem er grundvöllur sáttargjörðar milli a.m.k. hluta stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarinnar, og jafnvel talsvert stórs hluta stjórnarliðsins, hefur tekið breytingum, stakkaskiptum, það er erfitt að meta hvort það er til hins betra eða verra en það er ljóst að það hefur breyst mjög verulega.

Þingheimur hefur því ekki lengur fast land undir fótum í umræðunni. Hann veit ekki nákvæmlega um hvað þessi sátt á að vera sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að bjóða í ræðum sínum. Menn eru af vilja gerðir til að ná einhverju landi en menn verða að vita um hvað umræðan snýst. Því hefur verið haldið fram, herra forseti, aftur og aftur að það efni sem hefur verið aðalbitbein og undir í umræðunni sé ekki það efni sem verið er að ræða. Vel er hægt að færa rök að því en það er einfaldlega vegna þess að stjórnarliðið tók upp hjá sjálfu sér að kasta inn í umræðuna einhvers konar vísi að frv., þ.e. frv. hæstv. umhvrh. um breytingu á skipulagslögum, og það hefur sett málið í algjört uppnám og það veldur því, herra forseti, að ég sé ekki að nokkur von sé til að einhver endir á umræðunni sé í nánd og því tel ég að það sé nauðsynlegt og æskilegast væri að forseti og þingflokksformenn ræddu saman um hvernig væri hægt að semja um lok umræðunnar.

Ég vildi því inna hæstv. forseta eftir því hvort þess sé að vænta að eitthvað slíkt verði gert eða hvernig hann hyggist halda málinu áfram í kvöld.