Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:15:24 (5975)

1998-04-29 23:15:24# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÁRJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:15]

Ásta R. Jóhannesdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég efast um að ég þurfi að minna forseta á að við hófum þingfund kl. 10.30 í morgun og höfum síðan verið að ræða þetta mál og vorum einnig að því í gær. En nú hefur komið fram í umræðunni í kvöld að hæstv. félmrh. hafi verið með ákveðna skoðun á breytingu á frv. hæstv. umhvrh. Hann hefur látið í ljós ákveðna skoðun í því máli, að það beri að breyta því. Hann hefur ekki upplýst hvar hann lét þá skoðun í ljós né við hverja og skoðun hans hefur auðvitað áhrif á alla umræðuna um þetta mál.

Ég tek undir með hv. þm. Ágústi Einarssyni að ég teldi eðlilegt að áframhaldandi umræða um sveitarstjórnarmálið færi fram á morgun eftir að reynt hafi á það hvort frv. umhvrh. komi til umfjöllunar og þá verði þessi tvö mál rædd saman.

Ýmsar spurningar vakna um frv. umhvrh. sem við þurfum að fá svar við. Við getum ekki haldið áfram að ræða fram undir morgun eða langt fram á nótt þetta frv. um sveitarstjórnarmálin meðan ýmsum spurningum, sem snúa að svo tengdu máli, eins og frv. umhvrh., er ekki svarað. Við þurfum að fá svör við þeim, bæði hjá hæstv. umhvrh. og einnig hjá hæstv. félmrh., sem hefur verið með aðdróttanir í þá veru að það eigi að breyta þessu frv. sem hefur verið lagt fram til kynningar og er grundvöllur fyrir skoðun þó nokkurra þingmanna í því máli sem við erum að ræða núna.

Ég tel því að það væru skynsamleg vinnubrögð, herra forseti, að láta umræðunni lokið í kvöld og taka síðan til við umræðuna í fyrramálið þegar komið hefur í ljós hvort frumvarp umhvrh. verður tekið á dagskrá og þá gætum við rætt þetta saman. Annars þurfum við jafnvel að endurtaka mál okkar á morgun því að það mörgum spurningum er ósvarað í þessu efni.

Ég hvet því hæstv. forseta til að beita þeim skynsamlegu vinnubrögðum, því að ég veit að hæstv. forseti er mjög skynsamur maður, að hann taki þessum ábendingum og hefji umræðuna í fyrramálið um bæði málin.