Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:20:09 (5979)

1998-04-29 23:20:09# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:20]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vænti þess að ég bregðist ekki því óbilandi trausti sem hæstv. forseti hefur á þreki þingmanna og ef það er ósk hans að við verðum hér til að ræða eitthvað eilítið áfram þá get ég ekki skorast undan því enda hef ég sannkallaðan beyg af ægivaldi forseta þó milt sé jafnan.

Eigi að síður, herra forseti, er það sennilega vegna þess að ég er nokkuð tekinn að hníga að aldri, hef blóðsykurinn tiltölulega í lágri stöðu enda tekið að kvelda eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni. Ég náði því vafalaust ekki inntakinu í hinni fyrstu ræðu hæstv. forseta. Ég hafði spurt hann um það hvort eða hvernig hann hygðist láta þinghaldinu vinda fram. Ég hjó eftir því að hann sagði að hann ætlaði að halda áfram umræðum um það dagskrármál sem liggur nú undir og ekki skal ég gera neinar athugasemdir við það að sinni. En með tilliti til þess hvernig menn skipuleggja tíma sinn vegna þess að það er ljóst að fram undan er a.m.k. 25 klukkustunda umræða áður en þessu lýkur og miðað við það að þingflokkur Sjálfstfl. hefur ákveðið að kalla saman til þingflokksfundar kl. korter yfir tíu er þess þá að vænta að umræðu verði haldið áfram linnulaust þangað til?