Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 29. apríl 1998, kl. 23:22:11 (5981)

1998-04-29 23:22:11# 122. lþ. 114.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 122. lþ.

[23:22]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Athugasemd mín verður frekar stutt. Ég er nefnilega heldur velviljaður þessu máli og bíð eftir því eingöngu að komast á mælendaskrá. En þannig háttar til að ég mun vera níundi maður á mælendaskrá héðan í frá og þar á meðal á eftir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Þannig að þó að ég hefði viljað greiða götu hans með tilliti til blóðsykruástands og fleiri hluta og hleypa honum fram fyrir mig þá er það ekki hægt því hann er þar nú þegar.

Það sem ég ætlaði eingöngu að spyrja hæstv. forseta um er hvers megi vænta í mínu tilviki sem níunda manns á mælendaskrá, hvenær ég fái orðið. Mér þætti t.d. vænt um ef þau mál gætu skýrst eitthvað undir eða um lágnættið. Ég er ekkert að biðjast undan því að tala þó eitthvað sé komið fram á kvöld og jafnvel fram yfir lágnættið. Það er nú einu sinni einn merkilegasti tími sólarhringsins, lágnættið, og verða þá margar spaklegar hugsanir og ýmsilegt fleira gott til (EKG: Sérstaklega á vorin.) og sérstaklega á vorin.

Herra forseti. Það er réttmæt krafa held ég af hálfu okkar sem erum einna aftastir á skránni að áður en líður langt inn í nóttina verði einhverjar upplýsingar gefnar um hvers við eigum að vænta, hvort menn eiga að bíða langt fram eftir nóttu eða fram undir morgun eða hvort búast megi við því að gert verði hlé einhvern tíma þegar líður svona á.