Tillaga um dagskrá næsta fundar

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 10:51:01 (6014)

1998-04-30 10:51:01# 122. lþ. 115.91 fundur 331#B tillaga um dagskrá næsta fundar#, ÖS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[10:51]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. umhvrh. kastaði þessu frv. eins og sprengju inn í umræðuna í gær og setti hana í uppnám. Það kemur í ljós þegar frv. er lesið að það var til að mynda öðruvísi en tveir hv. þingmenn stjórnarliðsins ætluðu vegna þess að hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gerðu fyrirvara sem þau féllu frá vegna þessa frv. Fyrirvarinn er skýrður í nál. meiri hluta félmn. Þegar hann er lesinn saman við þetta frv. kemur í ljós að það fullnægir ekki þeim skilyrðum sem þau settu til þess að falla frá fyrirvörunum. Þarna er verið að draga tvo hv. þingmenn stjórnarliðsins á tálar.

Það hefur líka komið í ljós að sjö stjórnarliðar hafa tekið til máls um þetta mál og hafa allir með einum eða öðrum hætti óskað eftir breytingum á því. Hæstv. félmrh. kom í pontu í gær og sagði að það þyrfti að breyta því a.m.k. með tvennum hætti. Með öðrum orðum, herra forseti, það frv. sem hér er grundvöllur sáttargerðar milli stjórnarliðsins og tiltekins hluta stjórnarandstöðunnar er í uppnámi. Það hefur líka komið í ljós að hæstv. ráðherrar Framsfl. hafa verið að reyna að lægja öldur innan Framsfl. með því að standa í einhvers konar baktjaldamakki og hrossakaupum í skúmaskotum. Frv. sem hér var dreift er því ekki lengur til. Það er búið að breyta því bak við tjöldin og ekki er hægt að bjóða þingheimi upp á að ræða þetta mál öðruvísi en hann viti nákvæmlega hvernig frv. lítur út og þess vegna er nauðsynlegt að það komi á dagskrá, herra forseti. Ég segi já.