Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 10:58:01 (6018)

1998-04-30 10:58:01# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), KH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[10:58]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hér hafa gerst mikil tíðindi eða kannski öllu heldur ótíðindi sem augljóslega munu draga dilk á eftir sér og lyktar nú þessi afstaða hv. stjórnarliða af einhverju sem mætti kalla hefndarþorsta. Hv. stjórnarliðar hafa hafnað því að ræða formlega þingmál sem hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram, þingmál sem er ætlað að laða nokkra hv. þm. til fylgis við annað þingmál og greiða fyrir afgreiðslu þess. Maður hlýtur að spyrja sig um ástæður fyrir þessari höfnun. Ég get svarað fyrir mitt leyti að ástæðan er auðvitað sú að það er ekki samstaða um þetta þingmál. Það er fullkomin blekking af hálfu ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis að ætla að nota það þannig að draga úr andstöðu nokkurra hv. þingmanna við aðalatriði frv. um sveitarstjórnarlög sem lýtur að stjórnun og skipulagi miðhálendis Íslands.

Það er fullkomin blekking og í ljósi þessa, herra forseti, er eina rökrétta niðurstaðan að fresta umfjöllun og afgreiðslu beggja þessara mála til næsta þings. Fólkið í landinu sem hefur miklar og heitar skoðanir á þessu máli á ekki skilið umfjöllun og afgreiðslu af því tagi sem hér er stefnt að.