Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:06:01 (6024)

1998-04-30 11:06:01# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:06]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í félmn. fyrir hönd þingflokks Alþb. og óháðra. Ég skrifaði undir sveitarstjórnarfrv. með fyrirvara ásamt hv. þm. Kristínu Ástgeirsdóttur. Sá fyrirvari gekk út á það að samhliða samþykkt þessara laga yrði gerð breyting á skipulagslögunum. Við féllumst á þetta eftir að okkur höfðu verið sýnd drög að stjfrv.

Nú er því lýst yfir í þingsal af hálfu formanns þingflokks Sjálfstfl., sem hefur ekki haft fyrir því að spyrja okkur hvernig málin hafi gengið fyrir sig, að engin fyrirheit hafi verið gefin um að málið yrði tekið fyrir á Alþingi. En ég spyr hv. þm. Hvaða skilning leggur þingmaðurinn í málsmeðferð af þessu tagi þegar vitað er að við skrifum undir frumvarpsdrögin með þeim fyrirvara að samhliða verði gerð breyting á skipulagslögum? Ég get ekki fengið nema eina niðurstöðu út úr þessu dæmi, að það hafi verið reynt að blekkja okkur með þessari málsmeðferð og það ber vissulega að harma.