Rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:08:00 (6025)

1998-04-30 11:08:00# 122. lþ. 115.93 fundur 333#B rökstudd dagskrá við frv. til sveitarstjórnarlaga# (aths. um störf þingsins), VS
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:08]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Út af orðum hv. síðasta ræðumanns þykir mér það mjög leitt ef einhverjir hv. þm. upplifa þetta þannig að þeir hafi verið blekktir því það var svo sannarlega ekki meiningin að blekkja nokkurn mann með því að leggja þetta frv. fram. (SvG: Það hefur greinilega verið gert.) Ég tala bara frá mínu hjarta, hv. þm., ef ég fæ að halda orðinu. Meiningin með framlagningu frv. var að ná sáttum um málið, eins víðtækum sáttum og mögulegt væri. Það lá nokkurn veginn fyrir allan tímann að hv. þm. jafnaðarmanna ætluðu ekki að standa að málinu en frv. er lagt fram til þess að reyna að ná fram frekari sátt um málið. Þess vegna er náttúrlega mjög dapurlegt að á þessari stundu skuli þetta litla frv. vera orðið aðalhitamálið. (ÖS: Á þá ekki taka það á dagskrá?) Það er mjög dapurlegt að það skuli vera orðið aðalhitamálið í þessum umræðum öllum saman vegna þess að það er lagt fram með góðum vilja og það er lagt fram sem hugmynd að sáttatillögu.

Það er eflaust rétt sem hv. þm. Svavar Gestsson segir að ekki sé til neitt í þingskapalögum sem heiti að leggja mál fram til kynningar. Ég efast ekki um að þar fari hann með rétt mál. En það er svo margt sem er ekki í lögum, en það hafa skapast venjur á hv. Alþingi og ein af þessum venjum er sú að stundum eru mál lögð fram af ríkisstjórn til kynningar og þannig var með þetta mál. Eflaust má deila um hvað það þýðir þegar talað er um að eitthvað skuli afgreitt samhliða eins og kemur fram í nál. Ég þekki ekki þessa umræðu svo til hlítar að ég viti hvaða orð voru notuð innan félmn., en það var alla vega skilningur minn allan tímann að þetta mál væri lagt fram til kynningar og til þess að sýna vilja stjórnarflokkanna til að ná frekari sátt um málið.