Ósk um viðveru ráðherra

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:24:52 (6033)

1998-04-30 11:24:52# 122. lþ. 115.95 fundur 336#B ósk um viðveru ráðherra# (um fundarstjórn), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:24]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Virðulegi forseti. Það er hreinlega skelfilegt að upplifa þetta þinghald. Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan. Efnislega snýr málið að þingflokki Kvennalistans nákvæmlega eins og að þingflokki jafnaðarmanna. Þessar breytingar á skipulags- og byggingarlögum sem eru til umræðu skipta okkur ekki meginmáli vegna þess að þær eru ekki fullnægjandi að okkar mati og það kom seinast í ljós þegar frv. sjálft kom inn í þingið. Við höfðum haft veður af þeirri umræðu sem átti sér stað innan félmn. en því miður eigum við ekki fulltrúa þar en það kom á daginn að frv. er engan veginn fullnægjandi fyrir okkur. En það uppnám sem þinghaldið er komið í er með þeim ólíkindum að ég styð það heils hugar að nú verði gert hlé á þinghaldinu og það endurskipulagt með tilliti til þess sem hér hefur gerst.