Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:43:14 (6039)

1998-04-30 11:43:14# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:43]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Það sætir út af fyrir sig engum tíðindum þó að borgarlögmaður telji að ekki sé um mikilvæg ákvæði að ræða. Engu að síður hefur það komið fram að að undirlagi fulltrúa Reykjavíkurborgar koma hér inn mikilvæg atriði varðandi þá grein sem fjallar um heimild til þess að greiða út arð og um að sveitarfélögin setji sér arðgreiðslumarkmið í rekstri eigin fyrirtækja. Ég held að það fari ekki á milli mála að fulltrúar Reykjavíkurborgar vilja afgreiða þetta frv. til þess m.a. að ekki verði farnar vafasamar leiði til þess að taka út arð úr fyrirtækjum borgarinnar. Slík atriði skipta auðvitað miklu máli.

Ég vil bara endurtaka að þetta frv. þarf að ganga fram þannig að nýkjörnar sveitarstjórnir sem taka við á þessu vori hafi klárar línur.