Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 11:59:23 (6051)

1998-04-30 11:59:23# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., StB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[11:59]

Sturla Böðvarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þetta síðasta sem hv. þm. sagði þá vil ég segja að ég tel að núgildandi lög um skipulags- og byggingarmál dugi og hægt verði að leysa öll þau vandamál sem kunna að koma upp varðandi svæðisskipulagsvinnu og það að halda skikk á hálendinu á grundvelli þeirra laga.

Hins vegar höfum við sjálfstæðismenn sagt að það kunni að vera skynsamlegt til þess að ná víðtæku samstarfi um málið að gera breytingar og við höfum ýmsir lagt það til og þar á meðal hv. þm. Árni M. Mathiesen þannig að ég tel að það sé ekki svo mikill ágreiningur um þetta mál í raun og veru.

Hvað varðar getu litlu sveitarfélaganna þá tel ég að í gegnum samstarf geti þau sinnt sínum lögboðnu verkefnum. En það er ekkert launungarmál að ég hef talið að þróunin í sameiningu sveitarfélaga sé æskileg eins og hún hefur verið og að með stærri sveitarfélögum skapist meiri möguleiki á góðri þjónustu.