Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:01:37 (6072)

1998-04-30 16:01:37# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Maður tekur íbúa þeirra 42 sveitafélaga sem rætt er um að séu aðliggjandi miðhálendinu, 12 fulltrúa þaðan og tekur síðan íbúafjölda Reykjaness og Reykjavíkur og einn fulltrúa frá hvorum aðila. Þá eru áhrif hvers hinna tólfmenninganna í samvinnunefndinni sjötugfalt meiri en áhrif hvors fulltrúa Reykjavíkur eða Reykjaness. Misvægið í áhrifum og atkvæðavægi er stjarnfræðilega miklu meira en það er við kosningar til Alþingis í dag. En samt sem áður lítur hv. þm. svo á að með þessari samvinnunefnd sé hún búin að ná marki sínu sem hún á sameiginlegt með okkur alþýðuflokksmönnum því þessi samvinnunefnd hafi gert landið að einu kjördæmi þar sem allir hafi jöfn áhrif. Og í þessari samvinnunefnd hv. þm., þar sem landið er eitt kjördæmi, er atkvæðamisvægið sjötugfalt. Og það segir hv. þm. að sé árangur sem hún sé stolt af. Ég spyr hv. þm.: Hefur hv. þm. samþykkt fulltrúa fjórðungs kjósenda Framsfl. sem bakstuðning við þessa lendingu eins og hv. þm. sagðist hafa þegar hún mótmælti óréttlætinu í fyrri tillögu síns eigin ráðherra?