Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 30. apríl 1998, kl. 16:04:28 (6074)

1998-04-30 16:04:28# 122. lþ. 115.1 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 122. lþ.

[16:04]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og þeir muna sem hlut áttu að því máli var sú nefnd skipuð á grundvelli skýrra lagafyrirmæla sem komu frá Alþingi. Flm. þeirra lagafyrirmæla, eins og þau voru samþykkt á Alþingi, var félmn. Alþingis undir forustu Kristínar Einarsdóttur og með aðild hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar. Þeir sem mæltu með samþykkt þeirrar niðurstöðu voru sérstaklega þessir þingmenn tveir, bæði hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og hv. þm. Kristín Einarsdóttir og á grundvelli þessara skýru lagafyrirmæla skipaði ráðherra nefndina eins og Alþingi fól honum að gera. Þannig er nú staða málsins. Kjördæmisráð Framsfl. á Reykjanesi kom því ekkert nálægt þeirri afgreiðslu. En ég vænti þess að það verði nú kallað saman í þinghléinu yfir helgina, kannski strax á morgun á baráttudegi verkalýðsins, til að lýsa blessun sinni yfir hið mikla afrek hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að tryggja það að Reyknesingar fái jafnmikinn rétt til umsagnar á tillögum um skipulag hálendisins og þeir hafa í dag.